132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

734. mál
[20:40]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég krefst þess að þetta mál verði tekið út af dagskrá. Ef ekki stendur til að leiða umræðu um þetta mál til lykta þá er eðlilegt að málið verði tekið út af dagskrá. Eða er hugmyndin sú að klára 4. dagskrármálið, reyna að fá botn í þá umræðu, og síðan að láta áhugafólk um að stöðva einkavæðingarfár ríkisstjórnarinnar um að tala inn í nóttina eða til morguns um ÁTVR? Þetta eru vinnubrögð sem við sættum okkur engan veginn við.

Ég tel því miklu hyggilegra að umræðu um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hf. verði haldið áfram Þetta eru vinnubrögð sem koma ekki til greina. (PHB: Hver stjórnar?) Hver stjórnar? spyr hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem er náttúrlega vanur því að ganga hér svipugöngin og gera það sem honum er skipað að gera. Það erum við búin að horfa margoft oft á af hálfu þingmanna stjórnarmeirihlutans þegar þeir greiða atkvæði hér í málum þvert á eigin vilja og eigin samvisku. Ég get nefnt fjölmörg dæmi um það.

Hver ræður? spyr hv. þingmaður Pétur H. Blöndal. Við erum að leggja til að menn reyni að komast að samkomulagi. Að samkomulagi um lyktir þinghaldsins hér í vor. Við fáum ekki einu sinni svör við einföldum spurningum sem við berum fram um þinghaldið í kvöld. (Gripið fram í: Er það lýðræði?) Það er talað um það á óræðan hátt að málið verði núna sett í frest, sett á ís, en því haldið opnu að umræðunni verði fram haldið síðar í kvöld eða hugsanlega í nótt.

Telja menn þetta veru vinnubrögð sem eru boðleg og sæmandi? Ég tel svo ekki vera. Ég beini því til hæstv. forseta þingsins að hann geri annað tveggja, láti umræðu um ÁTVR halda áfram ef það er raunverulega vilji ríkisstjórnarinnar, en þá vil ég að hann viti eitt, að við munum gera þá kröfu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon reisti hér fyrr í kvöld, að formaður Framsóknarflokksins, hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson, sem er ábyrgur fyrir því að þetta mál, hlutafélagavæðing ÁTVR, sé sett í forgang hjá ríkisstjórninni, mæti hér til þingfundar, mæti hér til þessarar umræðu til að svara fyrir sig og sinn flokk.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur upplýst þingið um að það sé áhugamál og kappsmál beggja stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, að leiða þetta mál til lykta, þetta mikla forgangsmál ríkisstjórnarinnar að koma ÁTVR, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, í hlutafélagaform og inn á markaðstorgið.