132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[20:58]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Frumvarpi þessu er ætlað að styrkja enn frekar og gera algjörlega ótvíræð þau ákvæði almannatryggingalaganna sem kveða á um að eingöngu sé um niðurgreiðslu lækniskostnaðar af hálfu ríkisins að ræða að samningur við viðkomandi sérfræðilækni sé fyrir hendi.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að ákvæðum almannatryggingalaga verði breytt þannig að sjúkratrygging samkvæmt lögum taki til heilbrigðisþjónustu, samanber lög um heilbrigðisþjónustu, sem veitt sé á kostnað ríkisins samkvæmt lögum eða reglugerðum eða með greiðsluþátttöku ríkisins samkvæmt samningum. Einnig er aldursmarki barna sem eru sjúkratryggð með foreldrum sínum breytt úr 16 ára í 18 ára. Aðrar breytingar á ákvæðum laganna leiða af framangreindum breytingum og fela ekki í sér efnislegar breytingar á rétti sjúkratryggðra.

Aðdragandi frumvarpsins er að sérfræðingar í hjartalækningum sögðu sig frá samningi Læknafélags Reykjavíkur og samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1. apríl síðastliðinn. Samningurinn tekur til verka sem unnin eru á einkastofum sérfræðinga í hjartalækningum sem taka verktakagreiðslur fyrir unnin verk, en Tryggingastofnun ríkisins sér um greiðslur til verktakanna.

Bæði formlegar og óformlegar samningaviðræður milli aðila voru árangurslausar. Réttur sjúkratryggðra einstaklinga til að fá niðurgreiddan kostnað vegna þjónustu sérfræðinga í hjartalækningum er háður því að verktakasamningur læknis og samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sé í gildi. Þegar ljóst var að ekki yrði um samninga að ræða við sérfræðinga í hjartalækningum, þar sem þeir gengu sjálfir af samningi, þurfti að grípa til sérstakra aðgerða með reglugerð til að tryggja að einstaklingar fengju læknisþjónustu og niðurgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins vegna þjónustunnar. Ákveðið var að koma á valfrjálsu endurgreiðslukerfi til að tryggja rétt sjúkratryggðra til endurgreiðslu kostnaðar við heimsóknir til sérfræðinga í hjartalækningum sem ekki starfa á grundvelli verktakasamnings Læknafélags Reykjavíkur og samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Hið valfrjálsa endurgreiðslukerfi felst í því að heilsugæsla eða heimilislæknir þarf að skoða og meta sjúkling og vísa honum til sérfræðings í hjartalækningum. Forsenda þess að sjúklingur fái endurgreiddan kostnað vegna heimsóknar til sérfræðings í hjartalækningum, sem ekki er á verktakasamningi, er að sjúklingurinn fari þessa leið. Sjúklingur sem kýs að láta ekki reyna á það hvort hann geti fengið úrlausn vanda síns hjá heilsugæslu- eða heimilislækni og notfærir sér þjónustu sérfræðings í hjartalækningum sem ekki er á verktakasamningi greiðir sjálfur fyrir þjónustu sérfræðingsins og á ekki endurgreiðslurétt hjá Tryggingastofnun ríkisins. Sjúkratrygging hans nær ekki til ósamningsbundins sérgreinarlæknis.

Í þessu sambandi skal tekið fram að 65% verktakagreiðslna vegna sérfræðinga í hjartalækningum á árunum 2004 og 2005 má rekja til verktakaliðanna viðtal og skoðun eða viðtal, skoðun og hjartalínurit. Þeirri þjónustu má í mörgum tilvikum sinna á heilsugæslustöðvum. Heilsugæslulæknar og heimilislæknar geta leyst úr vanda sjúklinga í tilteknum tilvikum. Af sjálfu leiðir að ef þeir, sem eru trúnaðarmenn sjúklinga á heilbrigðissviði, telja sig ekki geta veitt viðkomandi þjónustu þá vísa þeir sjúklingnum áfram til sérfræðings í hjartalækningum.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir aðdraganda þessa frumvarps til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Markmiðið með lagabreytingunni er að taka af allan minnsta vafa um endurgreiðslukerfi sjúkratrygginganna, sem almenn sátt er um að standi traustum fótum nú þegar hópur sérgreinalækna segir sig af samningi. Þetta er brýnt til að standa vörð um endurgreiðslukerfið sjálft og tryggja hagsmuni þeirra sem sækja sér þjónustu sérfræðilækna. Ég tel mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar og til 2. umr.