132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:04]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, það er ekki verið að koma á svokölluðu tvöföldu kerfi. Með þeirri lagabreytingu sem um er að ræða, þ.e. aðallagabreytingunni, er einmitt verið að taka af allan vafa. Við viljum að hér sé það kerfi að samningar séu við sérfræðilækna, að það sé forsendan fyrir endurgreiðslu, þannig að meginreglan sé sú að samningar eigi að vera.

Í undantekningartilvikum er hægt að setja upp valfrjálst endurgreiðslukerfi eins og raunin varð núna þegar hjartalæknar sögðu sig af gildandi samningi, samningi sem gildir til loka mars 2008, ef ég man rétt. Þetta er undantekningartilvik sem kom upp en meginreglan á að vera sú að það eigi að vera samningar (Forseti hringir.) sem veiti rétt til endurgreiðslu.