132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:05]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra segir að meginreglan eigi að vera samningur við viðkomandi sérfræðistétt. En hvernig stendur á því að hæstv. heilbrigðisráðherra er þá að setja á fót kerfi sem einmitt drepur allan hvata til samninga, í ljósi þess að hjartalæknar geta vel unað við núverandi kerfi? Þeir fá væntanlega greitt fyrir sinn snúð, þeir hafa sína frjálsu gjaldskrá, þeir geta jafnvel tekið hina efnameiri fram fyrir í röðinni, þeir geta ráðið í hvaða röð þeir taka viðkomandi sjúklinga í því kerfi sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sett á fót. Þetta frumvarp lýtur einmitt að því að sníða ákveðinn agnúa af kerfinu og festa það enn frekar í sessi.

Ég held að þetta kerfi bjóði hættunni heim. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi ekki svarað því með fullnægjandi hætti hvernig tvöfalt kerfi verður ekki að veruleika í þessu regluverki.

Mig langar að bæta við einni spurningu í þessa stutta andsvari. Í ljósi þess að nú er skortur á heilsugæslulæknum í Reykjavík, telur þá hæstv. ráðherra að heilsugæslan sé í stakk búin til að taka á móti þessari nýju þjónustu sem þeir eiga að sinna? (Forseti hringir.) Og með hvaða hætti ætlar ráðherrann að efla hana samfara þessu nýja kerfi?