132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:09]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel ekki að hjartasjúklingar séu almennt að greiða meira með þessu nýja kerfi, alls ekki, vegna þess að 65% af verktakagreiðslunum fara í viðtal, skoðun og hjartalínurit. Þetta er hægt að framkvæma á heilsugæslunni. Hluti sjúklinganna mun því aldrei fara til sérfræðilæknis og mun bara borga lágt gjald á heilsugæslunni, miklu lægra en hjartasérfræðingarnir taka. Þeir sem þurfa að fara á báða staðina, þ.e. fyrst til heilsugæslunnar og svo með tilvísun til hjartalækna, munu greiða hærra. Þeir munu greiða komugjaldinu hærra, sem er lágt gjald. En það er alls ekki þannig að allir fari þá leið. Ég held að talsvert margir muni fá úrlausn í heilsugæslunni.

Varðandi það hvort aðrir segi sig af samningi þá vona ég að svo verði ekki. Það er samningur í gildi og þegar menn hafa gert samning ber að virða hann.