132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:10]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Samningur gildir og það ber að virða hann, segir ráðherra. Það var líka samningur í gildi við hjartalækna en þeir sögðu sig frá honum. Það geta aðrir sérfræðingar líka gert og komið sér upp sinni eigin gjaldskrá.

Mig langar til að biðja hæstv. ráðherra að staðfesta það og svara því hvort hjartalæknar geti rukkað um hvaða upphæð sem er þann sjúkling sem kemur til hans á sama tíma og Tryggingastofnun greiðir aðeins eftir þeirri gjaldskrá sem ráðherra setur.

Síðan spyr ég hæstv. ráðherra: Telur hún að bráðamóttaka Landspítala – háskólasjúkrahúss sé í stakk búin til að taka við fjölgun hjartasjúklinga inn á bráðamóttökuna, sem ófrávíkjanlega mun verða, a.m.k. var það álit þeirra fulltrúa frá Landspítala sem komu á fund heilbrigðis- og trygginganefndar vegna þessa máls?