132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:17]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það virðist greinilegt að það eigi að festa í kerfi það tilvísanakerfi sem tekið var upp 1. apríl síðastliðinn. Ég vil vekja athygli á því að Hjartaheill – Landssamtök hjartasjúklinga og SÍBS hafa mótmælt þessu kerfi mjög harðlega fyrir hönd skjólstæðinga sinna sem þurfa á þessu að halda.

Það er alveg ljóst að óhagræði sem af því leiðir að leita til heimilislækna fyrst og síðan til hjartalækna eins og óhjákvæmilegt er, mun skapa aukakostnað sem lendir á sjúklingunum yfirleitt. Ég gef ekki mikið fyrir þær röksemdir hæstv. heilbrigðisráðherra að heimilislæknar muni allt í einu fara að leysa málefni hjartasérfræðinga, eins og mátti skilja af orðum hennar áðan. Ég held að það sé afskaplega óraunhæft og komi ekki til greina að það verði í nema litlum mæli vegna þess að samband hjartalækna og sjúklinga þeirra er sjúklingum algerlega nauðsynlegt.