132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:20]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þetta snýst um það hvort leysa eigi samninga með lagaboðum eins og hérna er gert eða ekki. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði áðan að hjartalæknar hafi gengið út úr gildandi samningi. Á sama tíma segir í athugasemdum að þeir sögðu sig frá samningum með umsömdum þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Ég tel alveg nauðsynlegt að gengið verði miklu harðar fram í því að ná samningum við hjartalækna. Þetta er starfsstétt sem við þurfum nauðsynlega á að halda. Við verðum að ná samningi við þá um þjónustu þeirra. Ég lít svo á að það sé fráleitt að leysa mál af þessu tagi stöðugt með lagasetningu. Hvað þá með aðrar stéttir? Hvað þá með aðra sem eru í svipaðri stöðu?

Sjúklingarnir borga brúsann þegar upp er staðið og með þessu tilvísanakerfi, sem ég tel aldeilis fráleitt, verða þeir oft og tíðum að borga tvöfalt í stað þess að þeir borguðu þá heimsóknina til hjartalæknisins áður en þetta var. Tími sjúklinga sem fer í þetta (Forseti hringir.) skiptir líka verulegu máli.