132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:41]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég gat ekki á mér setið eftir þá ræðu sem hér var flutt. Þar komu auðvitað engar lausnir heldur var aðeins sagt að það ætti að semja. Jú, það hefði verið best en það tókst ekki. Það bar of mikið á milli.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hélt því fram að það væri einbeittur vilji hjá heilbrigðisráðherra að koma í veg fyrir að fólk fengi endurgreiðslu. Við viljum einmitt tryggja endurgreiðslur með þessu frumvarpi. Ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en svo að hann teldi að það ætti að endurgreiða þeim sem fara beint til sérfræðinga er væru ekki á samningi. Ég vil bara spyrja: Er það réttur skilningur sem ég lagði í ræðu hv. þingmanns? Vill hann að við endurgreiðum þeim sem hafa ekki beiðnir og fara beint til sérfræðinga? Ef svo er þá vill hv. þingmaður enga stjórn á þessu kerfi.

Á leiðinni fyrir þingið er einmitt heilbrigðisþjónustufrumvarp sem þverpólitísk samstaða ríkir um. Margrét Frímannsdóttir hv. þm. sat í nefndinni sem undirbjó það frumvarp. Þar er verið að styrkja heimildir heilbrigðisráðherra til að stýra heilbrigðisþjónustunni, til að ákveða hvaða þjónustu á að kaupa, í hve miklu magni og hvaða þjónustu á ekki að kaupa.

Miðað við ræðuna sem hér var flutt tel ég mjög brýnt að skilja hvað hv. þingmaður var að fara. Þar með skil ég væntanlega Samfylkinguna. Telur hv. þingmaður eðlilegt að við endurgreiðum þeim sjúklingum sem fara beint til sérfræðinga án tilvísunar og höfum ekki neina stýringu á þessu kerfi?