132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:43]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Kjarni þessa máls er að sjálfsögðu að hæstv. heilbrigðisráðherra er ekki tilbúin að mæta þeirri eftirspurn sem er fyrir hendi í heilbrigðiskerfi okkar. Það liggur ljóst fyrir að svokallaðar einingar, ekki bara hjartalækna, hafa klárast á haustin. Það þýðir að hvað þetta varðar er meiri eftirspurn og þeirri eftirspurn þarf að mæta með auknu fjármagni, þannig að það sé alveg ljóst.

Samfylkingin hefur talað skýrt fyrir því að við viljum forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. Við viljum á vissum sviðum auka fjármagn til heilbrigðiskerfisins en ekki á öðrum sviðum. En við viljum ekki hafa kerfi sem býður upp á hættuna á að mismunað sé eftir efnahag. Það er grundvallaratriði.

Hvernig ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra að koma í veg fyrir að ég geti borgað mig fram fyrir röðina? Hvernig ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra að koma í veg fyrir að hjartalæknar fari að rukka fyrir þjónustu sína upp úr öllu valdi, eins og sumir tannlæknar hafa gert? Hvernig ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra að koma í veg fyrir að niðurstaðan verði skert aðgengi og mismunun eftir efnahag?

Það dugir ekki að benda á frumvarp, þverpólitískt frumvarp, sem er á leiðinni. Ég get fullyrt að það þverpólitíska frumvarp sem ekki er enn komið fram mun ekki gera ráð fyrir tvöföldu kerfi í heilbrigðiskerfinu.

Kerfið, sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur örugglega komið á í einhverju óðagoti eftir að samningaviðræður strönduðu í lok mars, er vanhugsað. Það býður heim hættunni á tvöföldu kerfi, það gefur viðkomandi hjartalæknum frjálsar hendur um hvernig þeir uppfylli þjónustu sína vegna þess að það eru engar samningsskyldur á þeim og það býður hættunni heim hvað varðar mismunun eftir efnahag. Það er grundvallaratriði og spurningum um það hefur hæstv. heilbrigðisráðherra ekki getað svarað.

Af hverju hefur hæstv. heilbrigðisráðherra ekki farið þá leið, eins og áður hefur verið farin þegar sérfræðilæknar hafa sagt sig frá samningum, (Forseti hringir.) t.d. beitt afturvirkri reglugerð sem gerir ráð fyrir niðurgreiðslu (Forseti hringir.) eða greiðsluþátttöku ríkisins?

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmann að virða tímamörk.)