132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:51]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta tilvísunarkerfi er ekki sama tilvísunarkerfi og var um að ræða í upphafi 9. eða 10. áratugar síðustu aldar. (Gripið fram í: Hver er munurinn?) Munurinn er sá að þá vorum við ekki að tala um samningslausa lækna. Þá vorum við ekki að tala um frjálsa gjaldskrá. Þessi tvö atriði sem eru í því tilvísunarkerfi sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sett á fót, það var ekki gert ráð fyrir þeim hugmyndum þegar verið var að ræða um tilvísunarkerfið á sínum tíma. Þetta eru grundvallaratriði, því það eru þau atriði sem bjóða hættunni heim á mismunun. Það eru þessi atriði sem gera það kleift að þú getur keypt þig fram fyrir röðina og borgað það verð sem þú vilt. Ef þú ert með samningsbundinn lækni við Tryggingastofnun ríkisins getur þú t.d. ekki sett upp hvaða verð sem er. Það er lykilatriði. (Gripið fram í.)

Hér höfum við heila stétt lækna sem eru án samnings og við höfum ekkert með það að segja hvað þeir rukka fyrir. Við höfum ekkert um að segja hvers konar eftirliti þeir munu lúta varðandi samningsskyldu sem nú er í gangi gagnvart þeim stéttum sem hafa samið. Þetta er alveg tvennt ólíkt. Það eru auðvitað kostir og gallar við tilvísunarkerfi. Samfylkingin er alveg reiðubúin að skoða þá. En svona útgáfa af tilvísunarkerfi er ekki ásættanleg vegna þeirrar hættu hvað varðar mismunandi efnahag. Vegna þess að menn geta keypt sig fram fyrir röðina. Vegna þess að læknar geta rukkað um hvað sem er.

Ég hefði farið aðra leið, hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég hefði ekki valið þá leið sem drepur hvata til samninga Auðvitað viljum við öll að þeir semji, en þeir hafa ekki einu sinni fundað eftir að þetta kerfi var sett í gang. (Gripið fram í.) Það segir að kerfið er að festast í sessi, því miður. Þetta er ekki það heilbrigðiskerfi sem við viljum sem býður hættunni heim á að mismunað sé eftir efnahag. Það er grundvallaratriði. Svo geta menn alveg haft þá skoðun að það sé rétt að efnameiri geti keypt sig fram fyrir röðina o.s.frv. En við höfum bara hafnað þeirri leið í Samfylkingunni (Forseti hringir.) og erum algjörlega móti henni.