132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:53]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á málflutningi hv. þingmanns. Annaðhvort vill hann tilvísunarkerfi eða ekki. Tilvísunarkerfi er hægt að útfæra með ýmsum hætti. En prinsippið er hvort maður vill það eða ekki. Mér finnst ég þurfi að fá betri svör frá hv. þingmanni hvernig hann vill haga þessum málum.

Eins og ég sagði er hægt að útfæra þetta með ýmsum hætti. Sjúklingar geta valið þá leið að greiða fullt verð og þá skiptir í rauninni ekki máli þannig séð hvort fullt verð er ákveðið af ráðherra og með samningi eða hvort það er læknir sem ákveður það sjálfur. Auðvitað er ákveðin mismunun í verði en annaðhvort er kerfið með þessum hætti eða ekki.

Það sem mér finnst líka vera dálítið umhugsunarefni hjá hv. þingmanni er að hann leggur áherslu á að það þurfi bara að semja. Við sem erum kannski mjög reynd í samningamálum segjum að það sé ekkert til sem heitir bara að semja. Það er meira en að segja það. Þess vegna veltir maður fyrir sér hvað hv. þingmaður vill greiða þennan samning háu verði. Hvað vill hann teygja sig langt? Er það svo að hann vilji færa ákveðnum stéttum það vald í hendur að geta hreinlega ákveðið einhliða hvaða verð þær eigi að fá fyrir sína vinnu og hvað ríkið eigi að borga fyrir hana?

Þetta er alltaf ákveðið samspil. Þetta eru samningar og við heyrðum það, bæði ég og hv. þingmaður í hv. heilbrigðisnefnd frá fulltrúum lækna að þeir telja að læknar vilji ekki vera samningslausir. Þeir telja að þeir vilji ekki mæta sjúklingum sínum þannig að þeir vísi alfarið frá sér greiðslu. (Forseti hringir.) Þess vegna tel ég að það séu sjúklingar sem munu verða fyrsti aðili í samningum.