132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:58]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var skrýtin ræða hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni. Hann gagnrýndi og gagnrýndi en kom ekki með neinar lausnir. Hann gagnrýnir t.d. að hæstv. heilbrigðisráðherra hefði ekki gert samning. Hvernig er hægt að gera samning við fólk sem ekki vill gera samning? Maður þvingar ekki fólk til að gera samning.

Ef menn eiga að ganga að hverju sem er, vil ég spyrja hv. þingmann: Hvað mundi hann hafa gert? Hefði hann bara hikstalaust gengið að hverju sem er til að semja og opnað opinn krana á skattfé almennings? Er það slíkur forgangur sem ætti að hafa? Er það forgangur lækna að skattfé?

Ef menn ekki vilja semja þá getur hver sem er, t.d. læknir sem ekki er búinn að skrifa undir samning, veitt fólki þjónustu umfram röð, að sjálfsögðu. Það er ekkert sem hindrar að það komi tvöfalt kerfi, ekki nokkur skapaður hlutur.

Ef einhver læknir á Íslandi neitar að gera samning við ríkið um þjónustu sína getur hver sem er farið til hans og borgað himinháar upphæðir og fengið þjónustu strax. (Gripið fram í: Það hefur alltaf verið þannig.) Það hefur alltaf verið þannig. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir svoleiðis tvöfalt kerfi ef menn eiga nóga peninga, alveg sama hvað hv. þingmaður segir.

Ég vil spyrja hv. þm. aftur. Hvað hefði hann gert? Ef læknar neita að skrifa undir samning nema að fyrir fram gefinni tölu sem þeir eru búnir að ákveða.