132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[22:05]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Eins og hefur komið fram er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Eins og segir í greinargerðinni og hefur komið fram í umræðunni hér á undan tengist þetta frumvarp þeirri stöðu sem kom upp í fyrra mánuði þegar sérfræðingar í hjartalækningum sögðu sig frá samningi við TR.

Ástæða þess að hjartalæknar tóku þessa ákvörðun, eftir sem manni skilst, eru þær takmarkanir sem í samningum þeirra felst, en þegar tilteknum einingafjölda hefur verið náð fara afslættir frá umsömdu einingarverði að virka með ákveðnum hætti.

Aðsókn sjúklinga til sérfræðinga í hjartalækningum hefur farið vaxandi á síðustu árum og hefur tekið kipp á síðustu tveimur árum meðal annars vegna aukinnar vitundar fólks um heilsu sína og umræðu í samfélaginu um hjartasjúkdóma og einkenni þeirra.

Samningur TR við sérfræðilækna byggir á tilteknum ramma. Ef farið er út fyrir þann ramma í magni þjónustu byrja afslættir af verði að virka. Þetta kerfi hefur verið við lýði í Evrópulöndum eins og hér og er mjög þekkt kerfi. Að öðrum kosti eru læknar hreinlega með opna ávísun, læknar eða þær stéttir sem verið er að semja við, á ríkiskassann. Þetta er ein aðferð og afar viðurkennd aðferð til að hemja aukin útgjöld í heilbrigðisþjónustunni. Aukin aðsókn hefur leitt til þess að afsláttur sem felst í samningi TR við hjartalækna hefur farið að virka fyrr en ella og það telja læknar að skerði kjör sín síðustu mánuði ársins. Ekki hefur náðst samkomulag milli aðila um nýjan samning og samkvæmt því sem hefur komið fram í fjölmiðlum á síðustu dögum er hann ekki í sjónmáli.

Í sjálfu sér getur verið erfitt að taka á þessari auknu aðsókn til hjartalækna. Þó eru ýmsar leiðir til þess, meðal annars þær að beina fólki sem vill fá staðfestingu á heilsu sinni og heilbrigði, t.d. hvort blóðþrýstingur og blóðgildi séu í lagi, á annað stig innan þjónustunnar, þ.e. til heimilislækna, hjúkrunarfræðinga eða annarra sem eru bærir til að gera slíkar athuganir. Það yrði síðan þessara aðila að beina sjúklingum til hjartalækna eða annarra sérfræðinga ef rannsóknir og athuganir leiða í ljós að þörf er frekari aðstoðar.

Sá skilningur hefur verið ríkjandi í gegnum tíðina að einungis þegar lagaákvæði liggur fyrir um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tiltekinnar heilbrigðisþjónustu og gerður hefur verið samningur við viðkomandi, að þá fyrst taki ríkið þátt í að greiða fyrir þjónustuna. Um þetta hefur ríkt sátt meðal fagaðila, stjórnvalda og þeirra sem njóta þjónustunnar. Þetta eru sanngjarnar og eðlilegar forsendur fyrir greiðsluþátttöku. Að öðrum kosti væri erfitt að halda utan um umfang og þróun heilbrigðisþjónustunnar svo ekki sé talað um kostnað hennar. Þetta frumvarp er hugsað til að styrkja þennan skilning á aðkomu stjórnvalda við niðurgreiðslu á heilbrigðisþjónustu til almennings, en það vaknaði einhver vafi þar um í ráðuneyti að ákvæði núgildandi laga kveði nægilega fast á um þennan skilning. Ég hef ekki heyrt neinn mótmæla því að þessi skilningur sé réttur, hvort heldur ég tala við heilbrigðisstarfsfólk eða stjórnvöld, aðila þar innan. Um þetta er almennt samkomulag í þjóðfélaginu.

Viðbrögð heilbrigðisráðherra við því ástandi sem skapaðist þegar hjartalæknar sögðu sig frá samningi var að setja reglugerð um skilyrði fyrir greiðsluþátttöku vegna þjónustu hjartalækna meðan þeir eru utan samnings við TR. Reglugerð heilbrigðisráðherra kveður á um að greiðsluþátttöku ríkisins vegna þjónustu sérfræðinga á sviði hjartalækninga verði við þessar aðstæður einungis til að dreifa hafi viðkomandi sjúklingur fyrst leitað til heimilislæknis og hann fái ekki úrlausn sinna mála hjá honum en þurfi sannanlega að leita til hjartasérfræðings vegna heilbrigðisvanda að mati heimilislæknis. Meðan þetta ástand ríkir þurfa hjartasjúklingar að hafa meira fyrir því að fá þjónustu hjartalækna og hefur það valdið einhverjum óþægindum sem verður ekki hjá komist. Hins vegar hefur reglugerð hæstv. heilbrigðisráðherra mildað þetta með því að tilvísun til hjartalæknis gildir í nokkra mánuði.

Að öðru leyti hefur tilvísunarkerfi ekki verið við lýði hér á landi þótt ýmsir hafi vissulega talað fyrir því eins og ég rakti í andsvari mínu áðan við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson. Þó verður að segja að þessi tilraun sé í sjálfu sér áhugaverð og ég hvet heilbrigðisyfirvöld til að fylgjast mjög vel með hvaða áhrif hún hefur.

Ég hef oft haldið því fram að í mörgum tilvikum sé verið að veita heilbrigðisþjónustu á allt of háu stigi og fyrir of mikinn tilkostnað. Það á til dæmis við um þegar fólk leitar beint til hjartalækna vegna þess að það hefur grun um kvilla frá hjarta og æðakerfi. Oft getur fólk leitað á lægra stig til að fá úrlausn mála og þess vegna staðfest hvort viðkomandi þarfnist frekari skoðunar. Ég tel einnig að hjartalæknar séu þeirrar skoðunar að þeir vilji að þekking þeirra sé nýtt til hins ýtrasta en séu ekki að sinna verkefnum sem aðrir geta séð um. Því er þessi tilraun sem nú stendur yfir mjög áhugaverð þótt hún hafi reyndar komið til vegna sérstakra aðstæðna.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson velti því fyrir sér í ræðu sinni áðan hvers vegna eftirspurn eftir þjónustu hjá hjartalæknum hefði aukist. Ég kom að því áðan að það er meðal annars vegna vitundarvakningar. En ég held líka að það sé vegna þess að fólk hefur yfirleitt ekki þekkingu eða yfirsýn yfir það að það getur leitað sér þjónustu á lægra stigi en þurfi ekki að fara til hjartalæknis þegar það hefur áhyggjur af hjartanu. Fólk getur leitað til heimilislæknis. Það getur þess vegna leitað til apóteka, þjónustu sem veitt er innan apóteka, t.d. að mæla blóðþrýsting. Fólk er oft að koma til að fá fullvissu um hvort allt sé í lagi eða ekki. Sú aukna umræða í samfélaginu sem hefur leitt til aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu hjartalækna þýðir ekki að hjartalæknar þurfi endilega að veita þessa þjónustu. Á þetta hefur hæstv. heilbrigðisráðherra einmitt bent þegar hún segir að um 65% þeirrar þjónustu sem hjartalæknar inna af hendi, þ.e. viðtöl, hjartalínurit og slíkt, sé hægt að veita á öðru stigi. Ég finn það á samræðum mínum við hjartalækna að þeim er ekkert um að veita þjónustu sem þeir vita að aðrir ættu að veita. Það þarf ekki hjartalækni til að taka hjartalínurit. Það þarf aðila sem kann að taka hjartalínurit þó aðrir lesi úr því.

Að lokum vil ég hvetja TR og viðkomandi sérfræðinga til að ganga til viðræðna og komast að samkomulagi um þá þjónustu sem kaupa á. Að öðru leyti vil ég lýsa stuðningi mínum við þetta frumvarp enda skerpir það á þeim skilningi sem ég tel að samkomulag sé um í þjóðfélaginu um skilyrði fyrir greiðsluþátttöku ríkisins fyrir heilbrigðisþjónustu.