132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[22:17]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég spurðist fyrir um þetta í heilbrigðisnefnd. Ég spurði þá gesti sem komu fyrir nefndina og fram komu efasemdir hjá fulltrúum Tryggingastofnunar ríkisins um að reglugerðin stæðist lagagreinina. Ég tel fulla ástæðu til að skoða það nánar í nefndinni. Við eigum auðvitað ekki að láta það viðgangast á löggjafarsamkundunni að ráðherra setji reglugerð sem gengur lengra en lögin. Ég get ekki séð betur, bara með leikmannsaugum, með því að lesa lögin og reglugerðarheimildina, en að ráðherra sé á mjög gráu svæði.

Ég hef efasemdir um að það sé heimilt að fara þessa leið með reglugerð. Það á löggjafinn ekki að láta viðgangast. Ég tel að við þurfum að skoða þetta í nefndinni. Ég spyr hv. þingmann hvort hún telji ekki ástæðu til að skoða það. Ég hélt, þegar þessi almannatryggingalög komu inn í þingið, að skjóta ætti lagastoð undir reglugerðina. Ég efast um að hún hafi stoð í lögunum eins og hún er framkvæmd. Það er skilyrði fyrir reglugerðinni og frekari kostnaðarþátttöku að viðkomandi sérfræðingur sé á samningi. Við getum borið þetta saman við umræðuna um sálfræðingana. Það var alltaf talað um að Tryggingastofnun gæti ekki tekið þátt í þeim kostnaði af því að þeir væru ekki á samningi. Þannig hefur það verið með allar þær stéttir sem sjúkratryggingarnar hafa greitt hluta af kostnaði við, að það þarf að vera fyrir hendi samningur við stéttina áður en Tryggingastofnun tekur þátt í þeim kostnaði. (Heilbrrh.: Það er undanþága.) Það er ekki undanþága.