132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[22:21]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Ástu Möller mjög skýrrar spurningar: Verður hægt, í þessari útgáfu tilvísunarkerfis sem hér er verið að festa í sessi, hægt að kaupa sig fram fyrir röðina eftir þjónustu hjartalækna? Verður þá hægt að kaupa sig fram fyrir röðina hjá sérfræðilæknastéttinni í heild sinni, þ.e. í ljósi þess að allir hjartalæknar eru án samnings og verða með frjálsa gjaldskrá? Er fyrir hendi möguleiki á því að hægt sé að kaupa sig fram fyrir röðina með þessum hætti?

Í öðru lagi spyr ég: Telur hv. þingmaður rétt að hinn efnameiri geti átt rétt á að fara á einn stað í heilbrigðiskerfinu og fengið þjónustu á meðan hinir efnaminni þurfa að fara á þrjá staði til að fá sömu þjónustu?

Þriðja spurningin: Hvað í þessu kerfi sem hv. þingmaður styður að taka upp kemur í veg fyrir svipað ástand og við sjáum varðandi tannlæknaþjónustu, þ.e. eitthvað sem heitir ráðherragjaldskrá, sem er ákvörðun ráðherra um hve mikið hann vill niðurgreiða viðkomandi þjónustu og síðan raunveruleg gjaldskrá og verðbilið þar á milli geti aukist með tímanum? Hvað kemur í veg fyrir það að þjónusta hjá hjartalækni verði dýrari en sem nemur niðurgreiðslunni frá hæstv. ráðherra?

Hv. þingmaður talaði um að henni væri umhugað um að þjónustan yrði veitt á réttu þjónustustigi, á réttu stigi í heilbrigðiskerfinu. Hvað segir hv. þingmaður um áhyggjur forsvarsmanna Landspítalans af því að hugsanlega muni streymið á bráðasvið Landspítalans aukast, sem er dýrasta stig þjónustunnar? Það er augljóslega ekki búið að hugsa þetta kerfi til enda hvað varðar heildarkostnaðinn.