132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[22:26]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrstu spurningu mína þá kalla ég eftir ítarlegri svörum ef hægt væri að fá þau frá hv. þingmanni. Hv. þingmaður sagði að væntanlega mundu hjartalæknar ákveða sama verð. En ég held að það sé hugsanlega ekki leyfilegt að þeir hafi samræmda gjaldskrá, t.d. í ljósi þess að tannlæknar mega ekki samræma gjaldskrár sínar. Ég tel að orð hv. þingmanns hafi í rauninni verið örvæntingarfull tilraun til að tala gegn þeirri stöðu sem augljóslega blasir við, að á meðan við höfum samningslausa lækna með frjálsa gjaldskrá geta menn auðvitað keypt sig fram fyrir röðina. Gæti hv. þingmaður ekki svarað því já eða nei? Mun þetta kerfi bjóða heim hættunni á því, já eða nei?

Hv. þingmaður sagði einnig að báðir aðilar, bæði efnameiri og efnaminni, hefðu sömu möguleika á að fara fyrst til hjartalæknisins eða fara tilvísunarleiðina. Það er ekki rétt, í ljósi þess að þeir hafa mismunandi efnahagslega stöðu. Sá efnaminni hefur hugsanlega ekki tök á að fara beint til hjartalæknis í ljósi þess að sú þjónusta á að vera dýrari samkvæmt kerfinu. Hann fengi þá ekki endurgreiðslu þannig að hann hefur ekki sama valfrelsi og hinn efnameiri.

Mig langar að bæta við einni spurningu til viðbótar. Ég veit að hv. þingmaður ætlar að svara mér varðandi ráðherragjaldskrána versus raunverulegu gjaldskrána og varðandi rétt til þjónustu á LSH. Telur hv. þingmaður ekki rétt ef við ætlum að samþykkja þetta frumvarp að aðrar heilbrigðisstéttir geti vísað á hjartalækna, t.d. lungnalæknar, svæfingarlæknar og taugalæknar eða lyflæknar? Eða telur hv. þingmaður að eingöngu heilsugæslulæknar eigi að hafa réttinn til að vísa á þjónustu hjartalækna en ekki þessar tilteknu stéttir, sem hugsanlega eru í þeirri stöðu að sjá að þörf sé á að vísa viðkomandi sjúklingi áfram til hjartalæknis?