132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[23:11]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að hv. þm. Jónína Bjartmarz, formaður heilbrigðis- og trygginganefndar, virðist taka undir hluta efasemda minna varðandi þetta nýja kerfi. Hv. þingmaður tók undir þá og benti á að með hinu nýja kerfi væri samningssambandið ekki lengur fyrir hendi milli TR og hjartalækna og þar af leiðandi hefðu þeir ekki samningsskyldur. Þetta var eitt af þeim atriðum sem ég benti á að væri galli í þessu kerfi. Hv. þm. Jónína Bjartmarz nefndi einnig að skortur yrði á eftirliti TR og að skyldan til að senda læknisbréf til heimilislæknis væri a.m.k. á reiki.

Hv. þingmaður sagði einnig að kerfið gæti verið fordæmisgefandi fyrir aðrar stéttir. Ég benti einmitt á þá hættu sömuleiðis. Hv. þingmaður gerir ólíkt hæstv. heilbrigðisráðherra greinarmun á tilvísunarkerfi sem er byggt á samningum og síðan tilvísunarkerfi sem er ekki byggt á samningum. En hæstv. heilbrigðisráðherra, hv. þm. Ásta Möller og jafnvel hv. þm. Pétur Blöndal einnig gerðu ekki greinarmun þar á milli, þ.e. tilvísunarkerfis sem byggist á samningum við alla undir sama kerfi og síðan kerfi varðandi samningslausa lækna.

Ég tek einnig undir að það er nauðsynlegt að birta viðkomandi gjaldskrá. Ég hef lagt fram þingmál um að lækni sé einfaldlega heimilað að auglýsa. Þetta er liður í því. Ég fagna því og vona að hv. þingmaður geti stutt það mál þegar það kemur til umræðu.

En mig langar að kalla eftir skýrari svörum hv. þingmanns um hvort hún sætti sig við kerfi sem bjóði þeirri hættu heim að þar skapist forgangur hinna efnameiri að heilbrigðiskerfinu. Mun hún sætta sig við og styðja slíkt kerfi, þar sem sá möguleiki er fyrir hendi að kaupa sig fram fyrir röðina? Eða telur hún að þetta kerfi bjóði ekki upp á þann möguleika?