132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[23:13]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson beinir til mín nokkrum spurningum og segir með réttu að ég hafi efasemdir um þetta nýja kerfi. Ég vil ekki einu sinni viðurkenna að þetta sé nýtt kerfi. Þetta eru viðbrögð hæstv. heilbrigðisráðherra við þröngri stöðu sem upp kom þegar hjartalæknar, eftir þriggja mánaða samningsþref, segja sig frá þessum samningi. Þeir höfðu uppsagnarrétt, þ.e. heimildina til að segja upp samningnum. Það var ekki hægt að banna þeim það. Ég ætla því ekki að taka undir að þetta sé nýtt kerfi.

Ég benti á gallana við þetta en ég vil líta á þetta sem tilraun. Ég tel þetta fyrst og fremst vera neyðarúrræði. En ég varði töluverðum hluta af ræðu minni til að útskýra hvernig ég mundi vilja hafa þetta. Ekki þannig að þetta væri bara hipsum haps, því að ramminn sem ræður hvaða verk við kaupum, hverjir lentu út af samningi og hverjir ekki. Það verðar að vera faglegar forsendur sem sjálfstæðir aðilar, þverfagleg nefnd, vinna út frá við að ákveða hvað almannatryggingar skuli greiða. Það er alveg ljóst að það er ekki minn vilji að fór sem fór. Ég styð það ekki að fleiri læknar velji þessa leið. Það felur í sér tiltekna mismunun. Það eru á þessu miklir gallar en staðan var þröng. Ég held að menn ættu fyrst og fremst að draga lærdóm af þessu.

Svo vil ég halda því til haga að hvatning Jónínunefndarinnar, til að taka þessa umræðu um hvernig ætti að mæta aukinni fjárþörf, fól í sér ákveðna forspá um að svo færi sem færi. Trúlega hefur engan grunað að það yrði ekki nema viku seinna.