132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[23:19]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að Vinstri hreyfingin – grænt framboð átti ekki aðild að svokallaðri Jónínunefnd, við vorum því ekki þátttakendur að þeirri skýrslu en höfum auðvitað talið okkur fús til að fara yfir forsendur skýrslunnar og ræða framhaldið, enda veitir ekki af, hæstv. forseti, að fara mjög vel yfir stefnumótun varðandi heilbrigðisþjónustuna.

Eins og hv. þm. Jónína Bjartmarz sagði í ræðu sinni er vaxandi fjárfþörf í heilbrigðisþjónustunni, sama hvort það er hjá Tryggingastofnuninni og þar með sérfræðiþjónustunni, í heilsugæslunni, í öldrunarþjónustunni eða geðheilbrigðisþjónustunni. Á hvaða sviði sem er hefur verið hrópað eftir meira fjármagni til að geta sinnt þeim lögboðnu skyldum sem viðkomandi stofnun og þjónusta á að sinna. Því hefur ekki verið sinnt á hv. Alþingi. Það er ekki hægt, hæstv. forseti, að setja okkur öll undir sama hatt vegna þess að stjórnarandstaðan hefur sannarlega bent á þá staðreynd að það er vaxandi fjárþörf.

Síðan kemur aftur að þessu: Hvernig eigum við að forgangsraða? Þar er þessi pólitíska spurning. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafnar tvöföldu kerfi, við höfnum líka að hægt sé að kaupa sig fram fyrir, að þeir efnameiri geti gert það. En hvernig á að standa að því í þeirri stöðu sem nú er og ég vil spyrja hv. þm. Jónínu Bjartmarz: Hvernig hefði hún brugðist við í sporum hæstv. ráðherra í þessari erfiðu stöðu? Aukið fjármagn til Tryggingastofnunar? (Forseti hringir.) Eflt heilsugæsluna eða hvaða leið hefði hún farið?