132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[23:21]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil vegna orða hv. þm. Þuríðar Backman þar sem hún tekur fram að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafni því að hinir efnameiri geti keypt sig fram fyrir taka fram að það gerir Framsóknarflokkurinn líka. Það er meginstefna og heilbrigðispólitík framsóknarmanna að hafna því að það séu tvö kerfi.

Hv. þingmaður spurði líka hvað sú sem hér stendur hefði gert í sporum heilbrigðisráðherra í þeirri þröngu stöðu sem ráðherrann var í, þá ætla ég ekki að loka fyrir það að hafa gert nákvæmlega það sama. Kannski má segja að hefði þessi ágæta Jónínunefnd verið búin að skila skýrslu sinni með einhverjum fyrirvara hefði fólk verið betur í stakk búið, enda hefðu þingmenn og aðrir verið tilbúnir til að taka þá umræðu sem nefndin lagði til og marka stefnu. En þegar svona kemur upp á eins og skeður í tilfelli hjartalæknanna á miðju fjárlagatímabilinu þá er náttúrlega spurningin hvernig eigi að bregðast við. Við eigum að draga lærdóm af þessu og vera tilbúin í kjölfarið að setjast niður og taka meginumræðu, grundvallarumræðu um þessi mál.

En hvað á að greiða og hvað á ekki að greiða? Það er alveg rétt hjá hv. þm. Þuríði Backman, það er alltaf verið að biðja um meira fjármagn í heilbrigðisþjónustuna. Það eru allir að kalla eftir því. Að hluta til er það framboð þjónustunnar vegna nýrrar tækni og framfara í læknavísindunum sem veldur því að eftirspurnin er meiri. Ég trúi því ekki að hv. þm. Þuríður Backman sé að leggja það til að alltaf sé greitt fyrir alla. Það þarf einhvers staðar að setja mörk. Hvað er það sem er að skila okkur ábata? Hvað er það sem er að skila okkur betri heilsu? Ég minni bara á af því að hv. þingmaður hefur verið sammála þeirri sem hér stendur og fleirum í heilbrigðisnefnd, til að mynda vildum við sjá greiðsluþátttöku í kostnaði vegna sálfræðinga, en þá þarf meiri pening í þennan pott eða taka af einhverjum öðrum eins og geðlæknum. Þetta er ákveðið val sem er faglegt og við stöndum frammi fyrir á hverjum tíma.