132. löggjafarþing — 113. fundur,  3. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[00:00]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kýs að nota andsvarsformið, ég tel mig geta greitt úr þessum spurningum í því formi en ekki í langri ræðu á eftir.

Það er lítið um lausnir. Menn tala um gallana en benda ekki á neinar lausnir, maður gefur ekki mikið fyrir slíka umræðu. Heilsugæslan telur sig geta tekið við því viðbótarálagi sem hlýst af þessari stöðu og auðvitað munum við fylgjast með því í heilbrigðisráðuneytinu hvernig það gengur. En það er alls ekki verið að fara í tvöfalt kerfi eins og í Bandaríkjunum, alls ekki. Við erum einungis að bregðast við þeirri stöðu sem kemur upp þegar hjartalæknar fara af samningi. Menn geta alveg litið á hlutina í því ljósi að margir sjúklingar munu fá endanlega úrlausn á heilsugæslunni, sem er miklu ódýrara úrræði en þeir fá í dag. Af hverju ræða menn það ekki? (Gripið fram í.) Það er aldrei dregið fram í umræðunni. Margir munu fá ódýrari niðurstöðu, ódýrari úrræði en í dag. Aðrir munu fá dýrari úrræði, þ.e. þeir sem þurfa að fara á báða staðina. En margir munu fá ódýrari úrræði.

Það er búið að ræða svolítið um hvað hafi borið á milli í samningaviðræðum. Samkvæmt upplýsingum frá mínum samningamönnum vantaði fyrir síðasta ár 25 millj. kr. upp á og fyrir árið í ár 35–40 millj. kr. Þetta gerir þá samtals, ef við tökum lægri töluna, 35 millj. kr. á þessu ári og 25 millj. kr. í fyrra. Þá eru það 60 millj. kr. sem hefðu komið til greiðslu núna og svo á næstu árum 35–40 millj. kr. sem hefðu bæst inn í einingarnar. Hér er því um verulegar upphæðir að ræða og samningar tókust ekki.