132. löggjafarþing — 113. fundur,  3. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[00:02]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst ómaklegt af hæstv. ráðherra að tala um að enginn hafi rætt um hagkvæmni þess að fólk fari fyrst á heilsugæsluna. Ég eyddi þó nokkrum tíma í það áðan að það væri hagkvæmara og nefndi að þess vegna hefði ég verið frekar hlynnt tilvísunarkerfi á sínum tíma. Það leiðir fólk í ódýrustu þjónustuna og margir fá lausn í heilsugæslunni, það er alveg rétt.

Hæstv. ráðherra segir líka að engar lausnir hafi komið fram í umræðunni, það er ekki rétt. Ég sagði að það ætti að semja. Það á að semja við þessa menn og það er hægt að mætast á miðri leið. Hér heldur hæstv. ráðherra fram upphæðum eins og 25 millj. kr. og 35 millj. kr. Það eru allt aðrar upphæðir en hjartalæknarnir eru með þannig að eitthvað fer á milli mála þar. Síðan eru það þær upplýsingar sem koma fram í Morgunblaðsgrein frá hjartalækninum Ásgeiri Jónssyni. Hann segist ítrekað hafa óskað eftir því að fá að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra vegna þessarar deilu en hafi alltaf verið synjað. Það hefði kannski verið hægt að leysa málin ef menn hefðu verið — það hefur sjálfsagt verið sá ráðherra sem var á undan þeim sem nú er — tilbúnir til að taka á móti hjartalæknunum og ræða við þá — (Gripið fram í.) þetta er skrifað 5. apríl síðastliðinn. Þá hefði kannski verið hægt að leysa þetta.

Ég er sannfærð um að það er hægt að leysa þetta mál. Það hefur verið gert hingað til og menn hafa verið með afturvirkar reglugerðir þegar búið hefur verið að semja. Það á auðvitað að reyna þetta til þrautar. Það er óþolandi að þurfa að lesa um það í blöðum að menn hafi ekki einu sinni veitt hjartalæknum áheyrn þegar þeir óskuðu eftir viðtali við hæstv. heilbrigðisráðherra þegar deilan stóð sem hæst. Það finnst mér mjög ámælisvert.