132. löggjafarþing — 113. fundur,  3. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[00:08]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs í annað skipti í kvöld undir því formi að halda ræðu er vegna þess að ég var að vonast til að hæstv. heilbrigðisráðherra kæmi í lokin, héldi ræðu og svaraði þeim spurningum og álitamálum sem komið var inn á í ræðum kvöldsins en hæstv. ráðherra kaus að svara í andsvarsformi til eins hv. þingmanns.

Ég ætla ekki að fara að endurtaka alla umræðuna þannig að þetta verður stutt hjá mér. Mig langaði að athuga hvort ég gæti sært hæstv. heilbrigðisráðherra til að svara nokkrum spurningum. Ég ætla ekki að endurtaka allar röksemdirnar heldur bara hlaupa frekar hratt yfir þetta. Ég vona að hún treysti sér til að svara sem flestu.

1. Telur hæstv. heilbrigðisráðherra að með frumvarpinu sem hér er verið að ræða sé verið að tryggja endurgreiðslurétt almennings eða er hún sammála hv. formanni heilbrigðisnefndar og þeim sem hér stendur um að hér sé fyrst og fremst verið að koma í veg fyrir að heimild til málsóknar myndist gagnvart því fólki sem fer beint til sérfræðilæknis án tilvísunar? Það er grundvallarmunur á þessari nálgun og grundvallarmunur á ástæðum þess að ráðherra kemur með þetta frumvarp.

2. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að bregðast við þeirri stöðu að í þessu kerfi verða engar samningsskyldur á viðkomandi hjartalæknum? Þegar samningur er fyrir hendi hafa sem sagt ákveðnar samningsskyldur verið til staðar. Nú verða þær ekki fyrir hendi og nú er verið að festa í sessi kerfi sem gerir ekki ráð fyrir þessu samningssambandi. Hvað verður um þær samningsskyldur, t.d. um eftirlit Tryggingastofnunar, sendingu læknabréfa o.s.frv.?

3. Heilsugæslan segist vera tilbúin að taka við þessu nýja og aukna hlutverki. Hvernig má það vera í ljósi þeirrar stöðu að það eru allmargir, ég man ekki alveg töluna, á höfuðborgarsvæðinu sem eru án heilsugæslulæknis og heilsugæslan hefur ítrekað sagt við okkur í heilbrigðisnefnd að hún sé ekki fullmönnuð. Á ekki að grípa til neinna aðgerða og styrkja heilsugæsluna samfara þessu kerfi af hálfu hæstv. heilbrigðisráðherra?

4. Kemur til álita að mati hæstv. heilbrigðisráðherra að auka heimildirnar til tilvísunar til annarra stétta en eingöngu heilsugæslulækna. Kemur til greina að heimila ákveðnum læknum, svo sem lungnalæknum, taugalæknum, lyflæknum, svæfingalæknum, æðaskurðlæknum, öldrunarlæknum o.s.frv., sem þetta á helst við, að vísa til hjartalækna?

5. Er þetta kerfi komið til að vera? Ég held að formaður hjartalækna hafi sagt, og vitnað í hæstv. ráðherra, að verði þetta tilvísunarkerfi sett eins og hér hefur verið gert þá sé það komið til að vera. Er það rangt hjá honum að túlka orð hæstv. ráðherra þannig?

6. Hæstv. heilbrigðisráðherra talar um nauðsyn þess að stýra kerfinu og stýra fjármagninu. Hvernig mun hæstv. heilbrigðisráðherra bregðast við ef eftirspurn eftir þjónustu hjartalækna eykst á árinu? Segjum að fólk fari réttu leiðina, fari fyrst til heimilislæknis með tilvísun og síðan til hjartalæknis — segjum að þessi eftirspurn muni aukast, mun þá niðurgreiðsla í upphafi árs verða meiri en niðurgreiðslan í lok ársins. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að hæstv. ráðherra ákveður væntanlega hve miklum fjármunum hann er tilbúinn að eyða í niðurgreiðslurnar en hann veit ekki hver þörfin verður út árið vegna þess að hann mun væntanlega semja bara um eina heildartölu eða hvað? Síðan hefst niðurgreiðslan. Segjum að ég fari til hjartalæknis með tilvísun í janúar, ég fæ einhverja x-tölu frá TR sem greiðsluþátttöku ríkisins en síðan fer ég aftur sömu leið í desember en þá er potturinn, eða það fjármagn sem hæstv. heilbrigðisráðherra er tilbúinn til að verja í málaflokkinn, hugsanlega uppurinn. Mun ég þá fá lægri niðurgreiðslu? (Heilbrrh.: Nei.) Hver er stýringin með þessu kerfi? Hvernig ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra að mæta þörf sem ekki er búið að meta, og hefur raunar sýnt sig að er alltaf meiri en hæstv. heilbrigðisráðherrar gera ráð fyrir, einingarnar virðast alltaf klárast á haustin? Hver er stýringin í þessu kerfi þegar þessi möguleiki blasir við?

Auðvitað mótmæli ég því í lokin að við höfum ekki bent á aðrar lausnir. Auðvitað er það lausn að semja. Það er lausnin. Við eigum að reyna að semja til þrautar og það er verkefni hæstv. heilbrigðisráðherra að sinna sínu verki og semja við viðkomandi stétt. Það er enginn að segja að það sé auðvelt. Menn eiga að semja til þrautar. Menn eiga ekki að gefast upp og fara í vanhugsað kerfi eins og ég held að við höfum gert hér með þeim göllum sem ég hef áður komið inn á.

Það er kannski ekki ástæðulaust að sjúklingahópar og fjölmargir fagaðilar, þar á meðal formaður hjartalækna og formaður hjúkrunarfræðinga, hafa varað við þessu kerfið og kallað það tvöfalt. Það er ekki eins og við í Samfylkingunni séum ein að benda á hættuna af tvöföldu kerfi. Hagsmunaaðilarnir hafa líka gert það. Það er rétt að hafa það í huga.

Þetta eru örfáar spurningar sem mig langaði að koma að svona að lokum. Ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra geti tæpt á þeim flestum.