132. löggjafarþing — 113. fundur,  3. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[00:14]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta séu of margar spurningar til að koma svörum að í andsvari en (Gripið fram í: ... ræðu.) — já, þetta er seinni ræðan þannig að ég ætla að reyna að fara yfir þetta. Ég geri mér grein fyrir því að þingmenn vilja að sjálfsögðu fá svör en ég taldi að ég gæti í andsvari svarað því sem væri kannski efst á baugi en það er sjálfsagt að ræða þetta lengra fram á nóttina.

Varðandi endurgreiðsluréttinn er það þannig að þegar hjartalæknar gengu af samningi þá upphófst endurgreiðslurétturinn, hann sem sagt hvarf og varð enginn. Til þess að koma honum á aftur var reglugerðin sett um þetta valfrjálsa endurgreiðslukerfi. Þannig að með reglugerðinni, sem er fyllilega stoð fyrir í lögum, samkvæmt lögfræðilegri skoðun í ráðuneytinu, er hægt að tryggja endurgreiðslur til þeirra sjúklinga sem fara til hjartalækna með tilvísun. Þeir fá þá endurgreitt en hefðu ella ekki fengið endurgreitt af því að enginn samningur var í gildi. Með ákvörðun í heilbrigðisráðuneytinu, reglugerðinni, var þessi endurgreiðsluréttur sem sagt tryggður.

Frumvarpið sem við erum nú að fjalla um tryggir ekki þennan endurgreiðslurétt, hann var þegar tryggður með reglugerð sem var sett. Frumvarpið tryggir hins vegar sterkari lagastoð fyrir því að samningur þurfi að vera fyrir hendi, það sé meginreglan, við sérfræðilækna til þess að menn fái almennt endurgreitt. Svo eru það undantekningartilvikin sem við grípum til með reglugerð, þ.e. að menn geti fengið endurgreitt á grundvelli reglugerðar með tilvísun. Megingrundvöllurinn er sá í þessu kerfi að endurgreiðsla byggist á samningi. Segjum að hv. þingmaður færi til hjartalæknis sem væri ekki með samning og mundi greiða fullt verð. Hv. þingmaður gæti þá ekki krafist endurgreiðslu hjá Tryggingastofnun ríkisins eftir að vera búinn að greiða 100% hjá sérfræðilækninum án tilvísunar. Það er því verið að tryggja með ótvíræðum hætti að meginreglan verði sú að sjúklingar eigi að fá endurgreiðslu hjá þeim læknum sem eru með samning. Það er verið að koma í veg fyrir hugsanleg málaferli sem gætu hugsanlega tapast. Það er verið að tryggja þetta með ótvíræðum hætti.

Það er álitamál hvort lagabreytingin er nauðsynleg eða ekki. En til öryggis flytjum við frumvarpið. Þess vegna er eðlilegt að afgreiða það sem fyrst til að sá tími sé sem stystur sem er ekki skotheldur, ef svo má að orði komast, hvað varðar þennan endurgreiðslurétt. Frumvarpið byggist ekki á því að við séum að koma á endurgreiðslum til þeirra sem hafa tilvísun. Það er nú þegar tryggt með reglugerðinni sem við settum strax 1. apríl. Ég vona að þetta hafi varpað skýrara ljósi á frumvarpið.

Þá að heilsugæslunni. Ef þessi viðtöl eru brotin niður á hvern lækni á heilsugæslustöðvum þá eru þetta örfá viðtöl hjá lækni á dag, ég man ekki töluna, þau eru mjög fá. Þetta er ekki mjög mikið viðbótarálag á heilsugæsluna, alls ekki. Það eru ekki mjög margir án heimilislæknis. Það er búið að gera mjög mikið átak í uppbyggingu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og staðan er mjög góð úti á landsbyggðinni. Heilsugæslan hefur talið sig geta mætt þessu með viðundandi hætti en að sjálfsögðu munum við fylgjast með því.

Það hefur verið mjög athyglisvert að hlusta á umræðuna og ég vil aftur minnast á hv. þm. Þuríði Backman sem dró fram þá staðreynd að úti á landsbyggðinni er það almennt þannig að fyrsti viðkomustaður er hjá heilsugæslulækni. Þar fá margir endanlega úrlausn sinna mála. Það er miklu lægra hlutfall fólks á landsbyggðinni sem sækir til sérfræðilækna þegar maður horfir á heildina. Landsbyggðarfólk virðist almennt ekkert sjúkara en við sem erum á höfuðborgarsvæðinu og nýtum okkur sérfræðilæknana hlutfallslega meira. Sú staðreynd segir auðvitað ákveðna sögu. Úti á landsbyggðinni má segja að þetta kerfi sé við lýði sem við erum öll að kalla eftir, að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður. Þar eru ódýrustu úrræðin, þar er mesta yfirsýnin o.s.frv. Þar er heildstæðasta þjónustan.

Minnst var á að auka heimildir til annarra en hjartalækna. (Gripið fram í.) Varðandi spurninguna hvort aðrir læknar geti vísað þá tel ég að við eigum ekki að koma slíku kerfi á. Ég tel að við eigum að beina sjúklingunum inn í heilsugæsluna, það eigi að vera fyrsti viðkomustaðurinn og að þaðan eigi tilvísanirnar að koma. Það væri miklu eðlilegra kerfi en það að allir sérfræðilæknar væru meira eða minna að vísa á hjartalæknana. Það er miklu eðlilegra að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaðurinn og heilsugæslan getur tekið talsverðan hluta af þeirri skoðun sem hjartalæknar sjá um í dag. Eins og hér hefur komið fram eru 65% viðtöl og skoðun og hjartalínurit. Heilsugæslan getur framkvæmt hluta af því. Það er erfitt að segja hve stóran hluta en örugglega talsverðan hluta. Það verður reynslan að skera úr um.

Er þetta kerfi komið til að vera? Já, ég tel að það sé komið til að vera um einhvern tíma. Það er mjög erfitt að segja til um það hvernig heilbrigðiskerfið þróast í framtíðinni. En mér finnst óeðlilegt að þegar ekki semst og við förum út í þetta nýja kerfi, valfrjálst endurgreiðslukerfi, eigi það einungis að standa í einhverjar vikur. Það er óeðlilegt. Það er rétt, sem hér kom fram, að ég sagði við hjartalækna að ég teldi að yrði þessu kerfi komið á stæði það um einhvern tíma. En hvort þetta er eitthvert endanlegt kerfi, ég held að það sé enginn tilbúin til að kveða upp úr um það núna, alls ekki. Það verður tíminn að leiða í ljós.

Hvort það verða einhverjar minni niðurgreiðslur í lok árs en í byrjun árs, það tel ég ekki vera. Auðvitað get ég ekki séð þetta langt fram í tímann og kannski enginn en ég held að það sé alveg ljóst að vegna þess að hluti af sjúklingunum fær endanlega lausn í heilsugæslunni sparast þar peningur ef við miðum við það kerfi sem nú er. Það eru almennt ódýrari úrræði þannig að ég á ekki von á því að það verði einhverjar minni niðurgreiðslur í lok árs heldur en í upphafi árs. Að sjálfsögðu verðum við að fylgjast með hvernig þetta kerfi þróast í framtíðinni en ég hef ekki séð þetta fyrir mér.

Hv. þingmenn, sérstaklega frá Samfylkingunni, segja: Það á bara að semja. Það er ein lausn, það er að semja. Í þessu tilviki vil ég segja við þá hv. þingmenn sem hér hafa haft sig mest í frammi og sagt að heilbrigðisráðherra eigi bara að semja, það sé lausnin, að sjálfsögðu eigi bara að semja, að það var vissulega reynt að semja. (Gripið fram í.) Það var víst reynt að semja. Það var heil samninganefnd í því að reyna að semja. Garðar Garðarsson var formaður í þeirri nefnd og þar voru líka fulltrúar m.a. frá fjármálaráðuneytinu. Að sjálfsögðu var reynt að semja en það náðust ekki samningar. Það bar of mikið á milli. Og það verður að hafa í huga að það er samningur í gildi og hvenær var hann gerður? Fyrir líklega rúmu ári síðan. Það er rúmlega ár síðan sá samningur var gerður og hann á að standa til þriggja ára. Hann á að standa til loka mars 2008. Þegar menn semja vilja þeir auðvitað að staðið sé við samninga.

Í þeim samningi er ákveðið afsláttarkerfi, þ.e. ef menn fara yfir kvótann. Það er verið að reyna að stýra þjónustunni með ákveðnum kvóta og ef það kerfi gildir ekki þá er um að ræða sjálftökukerfi eins og hv. þm. Þuríður Backman benti á, ég held að þingmenn skilji það. Það er verið að stýra þjónustunni með kvóta, við erum að kaupa ákveðna þjónustu sem byggist á reynslu m.a. og þróun og auðvitað málflutningi lækna varðandi þjónustuna. Stundum hefur einingum verið bætt við af því að menn hafa verið sammála um að kaupa meiri þjónustu. Einingum hefur þá verið bætt við. Í þessu tilviki náðust ekki samningar af því að ég og samninganefndin vorum ekki tilbúin til að greiða þessar upphæðir fyrir þessar viðbótareiningar. Það bar of mikið á milli þannig að því miður náðust ekki samningar.

Auðvitað hefði verið frábært ef samningar hefðu náðst þá hefðum við ekki þurft að standa í þessu. Þá væri þetta löngu afgreitt mál og við þyrftum ekki að fjalla neitt frekar um þetta. Auðvitað hefði það verið langþægilegast en samningar náðust einfaldlega ekki. Það var mitt mat og minnar samninganefndar að of mikið bæri á milli. Og menn verða að skoða þetta í samhengi af því að það eru fleiri sérgreinahópar lækna, sem munu örugglega telja sig þurfa fleiri einingar í framtíðinni og á næstunni, og það fyrr en seinna, sem munu banka á. En samningur er í gildi og það er eðlilegt að reyna að halda sig við hann.

Ég tel að það sé vert að reyna einhvern tíma í framtíðinni, helst sem fyrst, að særa fram lausn hjá hv. fulltrúum Samfylkingarinnar sem hér hafa talað um hvað þeir hefðu gert í sporum heilbrigðisráðherra með engan samning. (Gripið fram í: Samið. Við hefðum náð samningum.) Hv. þingmaður, þið hefðuð ekki náð samningi. Ég trúi því ekki að þið hefðuð greitt þær upphæðir sem þarna voru á milli. Ég bara trúi því ekki. Það er vegna þess að ég tel að of mikið hafi borið á milli. Ég held að hv. þingmenn, sem hljóta að finna til ábyrgðar líka, hefðu ekki náð samningi í þessu tilviki. Menn verða því að geta svarað spurningunni: Hvað hefðu þeir gert hefðu þeir ekki náð samningi? Mér finnst það eiginlega vera skylda hv. þingmanna sem taka þátt í þessari umræðu að upplýsa hvað þeir hefðu gert ef þeir hefðu ekki náð samningi? Menn hljóta að geta svarað því hvað þeir hefðu gert ef þeir hefðu ekki verið tilbúnir til að greiða það sem þarna var verið að fjalla um.

Ég vil ítreka í lok ræðu minnar að þjónusta sérfræðinga í hjartalækningum er mjög mikilvæg, þegar maður ræðir þetta mætti kannski halda að hún væri það ekki. En þessi þjónusta er geysilega mikilvæg. Þrátt fyrir að ekki hafi náðst samningar ber ég mjög mikla virðingu fyrir læknum sem þjónusta okkar íbúa, þ.e. sérfræðilæknum í hjartalækningum og öðrum læknum.