132. löggjafarþing — 113. fundur,  3. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[00:31]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að það er tiltölulega nýlega sem slitnaði upp úr þessum samningaviðræðum, það er ekki langt síðan. Við höfum verið að koma á þessu nýja valfrjálsa endurgreiðslukerfi til að bregðast við þeirri stöðu. Það er það verkefni sem hefur verið á borðinu hjá okkur að bregðast við þessari stöðu sem nýlega varð ljós. Það hafði auðvitað stefnt í þetta um tíma en menn voru í samningaviðræðum og báru þá von í brjósti að samkomulag næðist en það náðist ekki. Það hefur verið verkefni okkar að bregðast við þessari stöðu og reyna að koma þessu kerfi á með eins liprum hætti og framast hefur verið kostur.

Það er alveg ljóst að engar samningaumleitanir hafa átt sér stað á þessu tímabili og það er ekki ætlunin að hefja neina samningafundi af okkar hálfu á næstunni þegar verið er að koma þessu nýja kerfi á. Það má vera að hjartalæknar nálgist okkur, ég skal ekki segja til um það. En eins og ég sagði í ræðu minni áðan er það mín skoðun að þegar bregðast þarf á þennan hátt við stöðu sem kemur upp sé eðlilegt að gera ráð fyrir að nýja kerfið gildi í einhvern tíma. Þetta eru það miklar breytingar. Það væri óbærileg aðferð að setja á nýtt kerfi og breyta því svo viku eða tveimur vikum seinna. Það er ekki boðlegt.