132. löggjafarþing — 113. fundur,  3. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[00:40]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Samfylkingin neitar að svara því hvaða lausnir hún telur koma til greina ef ekki er hægt að semja. Hún ber höfðinu við steininn og segir: Það er hægt að semja. (Gripið fram í.) Þetta er málflutningurinn og ég spyr enn á ný: Hvað telur Samfylkingin að sé eðlilegt að gera ef ekki nást samningar, hvað telur Samfylkingin rétt að gera þá? Telur Samfylkingin ekki að það sé þá rétt að setja valfrjálst stýrikerfi til að tryggja endurgreiðslurétt til þeirra sem fá tilvísanir? Hvaða aðra lausn sér Samfylkingin í þeirri stöðu?

Varðandi vinnslu málsins í þinginu þá er, eins og hér kom fram áðan af minni hálfu, mjög æskilegt að þetta fari í gegn sem fyrst og það er vegna eðli málsins. Það þarf að stytta þann tíma sem mest sem hugsanlega leikur einhver vafi á að ef til málaferla kæmi gæti það mál hugsanlega tapast, þ.e. að endurgreitt yrði frá ríkinu þó að menn væru ekki með beiðni og færu beint til samningslausra lækna. Þannig að það er best að klára málið sem fyrst. Þingið ræður auðvitað för í þessu eins og venjulega en ég tel að málið sé ekki það flókið að það þurfi að taka langan tíma að greiða úr því sem er efni frumvarpsins. Menn geta vissulega rætt lengi um heilbrigðismál í víðu samhengi en ég tel að nefndin eigi að einbeita sér að því sem stendur í frumvarpinu og það eru þessar endurgreiðslur, að það sé alveg tryggt að meginhugmyndin sé einfalt kerfi, þ.e. að það eigi að greiða þeim sem eru á samningi, það sé meginhugsunin.