132. löggjafarþing — 113. fundur,  3. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[00:45]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kalla þetta viðbrögð, viðbrögð við stöðu sem kemur upp. Mér finnst ekki að hægt sé að kalla þetta neyð. Þetta eru viðbrögð. Mér finnst neyð vera mjög gildishlaðið orð, mér finnst þetta vera viðbrögð við stöðu sem kemur upp. Mér finnst varla hægt að kalla þetta tilraun. Auðvitað sjáum við ýmislegt í þessu kerfi en það er ekki sett á sem einhver tilraun, það er ekki hugsunin á bak við þetta. Það er verið að bregðast við stöðu sem kemur upp þegar hjartalæknar ganga af samningi sem á að gilda til 2008.

Ég hef reynt, hæstv. forseti, að fá einhverja hugsun í það hvað Samfylkingin hefði gert í þessari stöðu. Ég er búin að heyra margoft: Við hefðum samið. Ég hef reynt að særa hv. þingmenn til að segja: Hvað hefðu þeir gert ef þeir hefðu ekki getað samið, að því gefnu, og þá kemur nýjasta svarið frá hv. þingmanni Samfylkingarinnar: Ekki þetta, við hefðum ekki gert þetta. (Gripið fram í.) En það er ekki bent á neinar lausnir þannig að ég verð að segja að þessi málflutningur er frekar ódýr.

Ég ætla að gera eina tilraun enn og spyrja hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson sem kemur upp í seinna andsvari, (Gripið fram í.) hann er búinn með sín andsvör. Jæja, hann sendir mér þá tölvupóst. Hvað hefði hv. þingmaður gert að því gefnu að ekki hefðu náðst samningar og það er bannað að segja: Ekki þetta. Það verður að koma lausn. Hvert er svarið?