132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[13:32]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Fyrir páska var lögð inn í mínu nafni beiðni um umræðu utan dagskrár um verðbólguhorfur og stöðu efnahagsmála og að til svara yrði hæstv. forsætisráðherra. Þessi beiðni var ítrekuð strax eftir páska og hefur vakað síðan. Vissulega hefur ýmislegt orðið í vegi þess að sú umræða gæti komist á, þar á meðal bæði fjarvera mín og hæstv. forsætisráðherra en fyrst og fremst er það þó undarlegt fundahald og skipulag á störfum Alþingis síðustu daga sem hefur valdið því að þetta brýna mál ásamt auðvitað mörgum fleirum hefur ekki komist á dagskrá og tímanum verið eytt í ýmis önnur og óþarfari verkefni.

Ég hlýt að mótmæla því og lýsa mikilli óánægju með að Alþingi fari heim þangað til í júnímánuði nk. án þess að kostur gefist á að ræða þá grafalvarlegu stöðu sem uppi er í þessum efnum. Út af fyrir sig skilur maður að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir velji þann kost að forða sér nú undan Alþingi. Þeir hafa greinilega komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki sérstaklega í þeirra þágu að hafa Alþingi að störfum til að fjalla m.a. um verk þeirra, nú þegar þeir eru að reyna að kaupa sér fegraða ímynd í kosningabaráttunni til sveitarstjórna í gegnum auglýsingastofur. Það passar sennilega illa við nýtilkomna umhyggju Sjálfstæðisflokksins fyrir öldruðum að málin, eins og þau raunverulega eru, séu rædd á þingi. Það passar sennilega illa fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík að verk hans í ríkisstjórn séu rifjuð upp hér á þingi.

Nú fer það svo að ekki verður heldur eldhúsdagur, frú forseti, og þar af leiðandi gefast okkur ekki færi á því að ræða þessa stöðu fyrr en í júnímánuði og það er eins og ég segi mjög bagalegt. Ég hefði viljað krefja hæstv. ríkisstjórn svara um það hvort hún hyggist gera eitthvað til að reyna að endurheimta efnahagslegan stöðugleika, hvort hún hyggist eitthvað gera til að reyna að verja kjör hinna lakast settu í þjóðfélaginu við þessar aðstæður.