132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[13:35]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Út af þessum orðum hv. þingmanns vill forseti segja þetta: Það hefur legið fyrir um sinn ósk frá hv. 5. þm. Norðaust., Steingrími J. Sigfússyni, um utandagskrárumræðu um efnahagsmál við hæstv. forsætisráðherra. Sú beiðni er ein meðal 13 annarra sem bíða og óskir hafa komið um frá þingmönnum til forseta. 10 af þeim eru fyrr fram komnar en beiðni hv. þingmanns. Forseti hafði áform um að þessi umræða og raunar fleiri gætu farið fram en nokkur röskun hefur orðið á þinghaldi síðustu daga, nefndardagar hafa verið, þingmenn hafa verið erlendis o.s.frv., auk þess sem ekki hefur verið gengið frá því við forsætisráðherra hvenær þessi umræða færi fram.

Þegar formaður þingflokks Vinstri grænna fór fram á það í gær á fundi með forseta og öðrum formönnum þingflokka um að þessi umræða færi fram í dag svaraði ég málaleitan hans þannig að ég teldi ekki rétt að veita einum þingflokki öðrum fremur heimild til utandagskrárumræðu nú á síðasta degi fyrir þetta þinghlé.