132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[13:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það hefði án efa verið í samkomulagi við alla stjórnarandstöðuna að þessi umræða svo og aðrar beiðnir yrðu teknar fyrir í dag en ég vil taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er fráleitt að hér skuli ekki fara fram umræða um efnahagsmálin og úrræði á því sviði eins og staðan í þeim málum er nú.

Þá vil ég árétta, hæstv. forseti, að það skrifast algerlega á ríkisstjórnina að starfsáætlun þingsins skuli nú gersamlega komin úr böndum og þingið sent heim í uppnámi og ósætti. Það er allnokkur tími síðan Vinstri hreyfingin – grænt framboð óskaði eftir því sérstaklega að við tækjum til umfjöllunar þau mál sem brýnt er að afgreiða nú fyrir vorið. Ég nefni bensínskattinn, ég nefni peningaþvætti og þar er ég aðeins að horfa til þeirra mála sem eru hér á vegum ríkisstjórnarinnar. Ég er ekki að horfa til þeirra mála sem við vildum að væru hér til afgreiðslu, kjör aldraðra, öryrkja og þeirra sem illa standa í þjóðfélaginu. Þetta skrifast á ábyrgð ríkisstjórnarinnar vegna þess að hún hefur sett sveran tappa í þinghaldið. Hún hefur lagt ofuráherslu á að koma í gegnum þingið mjög umdeildum einkavæðingarfrumvörpum sem stórlega skerða kjör ríkisstarfsmanna og eru svo umdeild að nánast allir sem koma fyrir þingnefndir fordæma þessi mál. Síðan er að koma á daginn að frumvarp frá ríkisstjórninni um Nýsköpunarstofnun hefur slíkar brotalamir að það er einnig fordæmt. Þetta er sá tappi sem ríkisstjórnin hefur sett í þinghaldið. Og nú sendir hún þingið heim og þorir ekki einu sinni að efna til eldhúsdagsumræðna eins og var á dagskrá þingsins. Þvílík framkoma.