132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[13:40]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er einhver furðulegasta ræða sem ég hef heyrt í langan tíma enda hefur hv. þingmaður ekki verið með okkur á síðustu vikum. Það hefur verið rætt um efnahagsmálin, það er alveg rétt. En að stjórnin, að hv. þingmenn Framsóknarflokksins skuli leyfa sér það að koma hér í ræðustól nú rétt fyrir þinghlé og segja að það eina sem sé að sé að stjórnarandstaðan vilji tala of mikið um efnahagsmálin, þess vegna fari verðbólgan upp. (Gripið fram í.) Er það nema von að það stefni niður á við í efnahagsmálum ríkisins, er það nema von ef skilningur hv. stjórnarþingmanna á efnahagsmálum ríkisins er ekki meiri en þetta? Og að stjórnarandstaðan hafi komið hér til að tala um of lága vexti. Hvenær hefur það gerst?

Virðulegi forseti. Ég kom hér upphaflega til að ræða um að nú erum við að fara heim í dag og þinghlé verður fram í júní. En þessi ræða var bara svo merkileg að það verður að vekja enn frekar athygli á henni. Við í Samfylkingunni höfum marglýst því yfir að við erum tilbúin til að gera hlé á þingstörfum og koma aftur til sumarþings. Við höfum lagt fram þingmál um breyttan starfstíma þingsins undir forustu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur en við hörmum það hins vegar að þetta skuli ekki vera gert í samkomulagi stjórnarandstöðu og stjórnar heldur er þessi ákvörðun tekin vegna þess að ríkisstjórnin hefur staðið með eindæmum illa að verki undanfarna mánuði, málin komið seint og um síðir fram, illa undirbúin, sum hrein hrákasmíði eins og Nýsköpunarmiðstöðin (Viðskrh.: Nei.) og allt hengt á það. Það er sama hvað hæstv. ráðherra segir. Málið er illa undirbúið, jákvæðasta umfjöllunin er frá Landsvirkjun sem segist ekki hafa skoðun á því.