132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[13:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það gleður okkur að sjálfsögðu að hv. þm. Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, er kominn til starfa með okkur og í sumarskapi að eigin sögn. Og þeir mega, þingflokksformenn stjórnarflokkanna, gefa sjálfum sér hvaða einkunn fyrir skaplyndi sem þeir vilja. Það breytir ekki hinu að uppi eru grafalvarlegir tímar í efnahagsmálum þjóðarinnar og það tjáir ekki fyrir hv. þm. Hjálmar Árnason eða þá stjórnarliða yfirleitt að ætla að drepa þeirri umræðu á dreif og gera hana að einhverju flissefni, eins og hér var reynt áðan. Og það dugar heldur ekki að vitna í einhvern amerískan speking.

Verðbólgan er komin á bullandi siglingu og þolendur þessa ástands eru eða verða almennir launamenn og sérstaklega skuldug heimili í landinu og það er ekkert grín. Ég get þess vegna vel verið í vondu skapi yfir því að ríkisstjórnin er núna að senda heimilunum í landinu reikninginn vegna óstjórnar sinnar í efnahagsmálum. Það er það sem ég vildi sérstaklega ræða við hæstv. forsætisráðherra. Þeir geta hlaupið til þegar þeir hafa áhyggjur af fyrirtækjunum, að þau verði fyrir búsifjum vegna ójafnvægisins, en almenningur, launamenn, heimilin skulu sitja uppi með reikninginn af óstjórn Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnar hans í efnahagsmálum. Þetta hefði Alþingi þurft að ræða og þó það hefði tekið nokkra daga. Okkur er ekki vant um að vera í okkar vinnu. Við munum vera í sumar eftir því sem þörf krefur en ríkisstjórnin ber ábyrgð á því klúðri, þeirri klessu sem þinghaldið er komið í og hún verður að taka á sig skömmina af því hvernig þessum málum er komið.

Ég tek fram, frú forseti, að ég skil alveg aðstæður virðulegs forseta og forseti þarf ekki að uppfræða okkur þingmenn um þá röskun sem hefur orðið á þinghaldinu. Við sem hér höfum verið að störfum undanfarna daga höfum verið vitni að því. Ábyrgðin er auðvitað ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst og þess ótrúlega sleifarlags og verkstjórnarleysis sem þar ríkir.