132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[13:56]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þessi umræða kemur ekki á óvart. Það kemur heldur ekki á óvart þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er aftur stiginn í pontu að maður heyri orð eins og klessur og klúður. Það má kannski segja að óvenjulegt sé að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir noti orð eins og hrákasmíð en hún hefur kannski orðið fyrir áhrifum frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. (Gripið fram í.)

Við vitum ofurvel að við höfum einsett okkur það á sl. hausti að reyna að hafa þetta þinghald í styttra lagi vegna sveitarstjórnarkosninganna eins og venja er til þegar sveitarstjórnarkosningar eru að vorlagi, sem er á fjögurra ára fresti. Nú stóð svo á að það tókst ekki. Nauðsynlegt var að þingið stæði venjulegan tíma og af þeim sökum komum við aftur saman í júní og það eru heldur ekki nein stórtíðindi. Þetta er í samræmi við þær venjur sem við höfum tamið okkur og ástæðulaust að vera með stóryrði af þeim sökum.

Hitt er fróðlegt að heyra hversu vel stjórnarandstæðingar eru vel að sér í skránni yfir óafgreidd þingmál. Það var mjög glöggt og gott yfirlit sem ýmsir þingmenn stjórnarandstöðunnar gáfu um hin ýmsu frumvörp ríkisstjórnarinnar og þeir byrjuðu meira að segja að velja úr hvaða frumvörp væru stjórnarandstöðunni þóknanleg og hvaða frumvörp ekki. Það sýndi sérstakan ósamstarfsvilja eða eitthvað því líkt eða illvilja okkar stjórnarsinna að við hefðum skoðun á því hvaða mál ætti að afgreiða á þinginu. En það sýndi hins vegar mikinn samstarfsvilja stjórnarandstöðunnar að hún skyldi vilja ráða því hvaða mál eru afgreidd á þinginu. Þetta er sérstakt sjónarhorn má segja en skýrir með vissum hætti af hverju þinghaldið hefur dregist eins og það hefur dregist.