132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:10]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er kannski ekki beinlínis andsvar heldur hafa vaknað spurningar við lestur þessa frumvarps sem mig langar til að beina til hæstv. utanríkisráðherra.

Fyrir það fyrsta langar mig til að grennslast fyrir um hvort gerð hafi verið einhver úttekt á því hversu margir af þeim sem nú starfa eða heyra undir þau störf sem hér eru talin upp hjá slökkviliði, snjóruðnings- og brautadeild, rafeindadeild, voltadeild og verkfræðideild, mundu halda áfram að starfa á flugvellinum eftir þessar breytingar. Og hversu margir mundu þá hugsanlega hætta og hvort stjórnvöld hafi hugleitt með hvaða hætti störfum þeirra mundi ljúka, hvort gerðir yrðu starfslokasamningar við þá starfsmenn eða hvort þeir yrðu að reyna að spjara sig upp á eigin spýtur.

Önnur spurning sem ég velti fyrir mér er í framhaldi af því sem kemur fram varðandi hugsanlegan kostnað. Hér er talað um í fylgiskjali að matsvirði fasteigna og tækja geti verið um 4,3 milljarðar. Þetta er nokkuð há fjárhæð. Liggur fyrir að hve miklu leyti okkur stendur til boða að taka við bæði fasteignum en líka tækjabúnaði? Því ég hygg að margt af þeim búnaði sem þarna er sé mjög dýr. Slökkviliðið þarf slökkvibíla og snjóruðningsdeildin þarf áfram sín snjóruðningstæki og annað þar fram eftir götunum. Liggur eitthvað nánar fyrir um það hvort við Íslendingar „fáum að erfa þennan búnað“ og greiðum þá eitthvað fyrir og þá hversu mikið og að hvaða leyti við munum taka við þessum búnaði?