132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:16]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í örstuttu máli. Það er mikið fagnaðarefni hve ríkisstjórnin tekur fljótt á þessum málum og eyðir þar með óvissu fjölda starfsmanna á Keflavíkurflugvelli. Það er rétt, eins og kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra, að þarna er að störfum hópur manna sem hefur mikla þekkingu og reynslu.

Hins vegar hefur oft verið rætt um hvort vera eigi flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli auk Flugmálastjórnar Íslands sem er yfir öllum öðrum flugvöllum í landinu. Rætt hefur verið um að mikið hagræði væri að því og jafnvel nauðsynlegt að sameina flugmálastjórnirnar þannig að það væri ein og sama flugmálastjórn yfir öllu landinu. Þess vegna beini ég þeirri spurningu til hæstv. utanríkisráðherra: Hvert stefnir í þessu máli? Þetta spor er stigið af skiljanlegum ástæðum en hvert stefnir þegar til framtíðar er litið? Hyggst utanríkisráðherra beita sér fyrir því að þetta fari í þann farveg sem allir vilja, þ.e. ein flugmálastjórn yfir öllum flugvöllum landsins?