132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:37]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með að þetta frumvarp skuli hafa komið strax fram og ekki síður að lýsa ánægju minni með að þingheimur skuli hafa samþykkt að taka það inn með svokölluðum afbrigðum og lýsir væntanlega vilja þingsins að mestu leyti til efnisatriða þessa frumvarps. Það er nefnilega svo eins og fram hefur komið í umræðunni að málið er af þeim toga að það er mjög mikilvægt að eyða óvissu og mikilvægt að þetta mál gangi hratt í gegnum þingið og fyrir því eru tvær meginástæður. Önnur er auðvitað sú að eyða óvissu gagnvart því fjölmarga starfsfólki sem vinnur á Keflavíkurflugvelli en jafnframt og í beinu framhaldi af því vegna öryggismála þjóðarinnar því að segja má Keflavíkurflugvöllur sé megingluggi þjóðarinnar til útlanda og mikilvægt að halda honum opnum þó að þessar snöggu breytingar hafi orðið á umhverfi hans.

Innan vallarins hefur myndast mikil sérfræðikunnátta og ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það er mjög mikilvægt þjóðarinnar vegna að halda þeirri sérfræðikunnáttu og þessum sérfræðistörfum þannig að hægt sé að bregðast fljótt og vel við og bjóða starfsfólki vinnu við þau störf sem starfsfólk hefur sérhæft sig í.

Nú er það svo, frú forseti, að í rauninni kemur sú staða sem orðin er ekki á óvart en segja má að það hafi gerst með miklu sneggri hætti en reikna mátti með og eins og fram hefur komið í umræðunni má segja að framkoma Bandaríkjamanna gagnvart okkur hafi í rauninni verið óskiljanleg. Þegar viðræður eru í gangi og í miðjum klíðum á milli þessara tveggja vinaþjóða þá skuli Bandaríkjamenn einhliða taka þessa ákvörðun og gera lítið úr varnarsáttmálanum sem hefur verið á milli þjóðanna og sýnt okkur í rauninni lítilsvirðingu með þessari framkomu. En þetta er staðreynd sem liggur fyrir, varnarliðið virðist vera á förum og þá er mikilvægt að bregðast við vegna þeirrar sérhæfingar sem lýtur að rekstri alþjóðaflugvallar og til að geta boðið því starfsfólki sem þarna er áframhaldandi vinnu. Þess vegna er mikilvægt að frumvarpið gangi hratt í gegn og ég fagna því þverpólitíska samkomulagi sem er hér innan þingsins um að láta málið ganga það hratt í gegn að það náist jafnvel að ljúka því í dag og þar með er óvissu eytt og starfsmenn vita þá að hverju þeir ganga. Ég tek þó undir þær spurningar sem hér hafa komið fram varðandi kjör starfsfólksins. Ég hygg þó að það sé ekki alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að launakjör starfsmanna slökkviliðsins innan vallar séu undir almennum kjörum slökkviliðsmanna í landinu. Það hefur einmitt verið öfugt, starfsfólk varnarliðsins hefur yfirleitt verið með heldur hærri laun en þeir sem eru utan varnarsvæðis og það hefur beinlínis verið launastefna varnarliðsins í því skyni að halda stöðugleika í starfsmannaveltu. Enda er það svo að hundruð starfsmanna hafa starfað þar áratugum saman.

Frumvarpið er í sjálfu sér einfalt. Það lýtur að þeirri heimild flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli að bjóða núverandi starfsmönnum varnarliðsins störf sem opinberir starfsmenn hjá flugmálastjóranum á Keflavíkurflugvelli og jafnframt er opnað fyrir þann möguleika að sama embætti geti samið við slökkvilið eða byggðasamlag sem rekur slökkvilið um að annast rekstur slökkviliðsins. Ímynda ég mér að þar hafi menn í huga Brunavarnir Suðurnesja, að geta skipulagt þær á heildrænan hátt á þessu landsvæði sem er ekki mikið um sig að flatarmáli og því ekki óeðlilegt að líta til Brunavarna Suðurnesja með heildarskipulag á slökkviliði fyrir þetta svæði.

Ég vek líka athygli á því að hér er tekinn af allur vafi um að tekjur af lendingargjöldum og gjaldtaka vegna öryggis- og leitarþjónustunnar, ef það má kalla hana svo, skuli enda á Keflavíkurflugvelli eins og verið hefur að nokkru leyti nú um hríð en sú var tíðin að hluti af þessum tekjum rann víða um landið. Hér er tekinn af allur slíkur vafi enda er ljóst að kostnaður okkar sem þjóðar af því að taka við rekstri flugvallarins nemur vel á annan milljarð kr. og er það eiginlega nýlunda þar sem varnarliðið hefur staðið undir þessum rekstri.

Í sjálfu sér þarf ekki mikið að segja. Ég árétta það og fagna því að frumvarpið skuli hafa komið fram og það sé þessi þverpólitíska samstaða um að láta málið ganga hratt og örugglega í gegn enda er hér um lágmarksbreytingar að ræða til að geta brugðist við gagnvart starfsfólki og gagnvart því að halda rekstrinum óbreyttum, þ.e. að halda rekstri flugvallarins opnum þó að varnarliðið annist hann ekki lengur.

Það sem hins vegar mun gerast í framhaldinu er ýmislegt og þar eiga örugglega eftir að verða miklar umræður innan þings eins og annars staðar. Ég nefni það sem hér hefur komið fram í umræðunni, það er vistun á Keflavíkurflugvelli þegar varnarliðið er farið og yfirráð varnarliðsins eru ekki lengur fyrir hendi, hvort þá sé eðlilegt að vista yfirráðin stjórnsýslulega undir samgönguráðuneyti eins og aðrar samgöngur. Það er umræða sem á eftir að fara fram og ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli ekki stíga frekari skref að þessu sinni þannig að hægt sé að keyra þetta hratt í gegn en síðan þarf umræðan um hina þættina að þroskast.

Í þessu samhengi hljótum við líka að velta upp þeirri spurningu þótt ekki sé hægt að svara henni á þessari stundu þar sem viðræður við varnarliðið standa yfir: Ef varnarliðið fer burt með allt sitt hafurtask hvað verður þá um hin miklu mannvirki sem þarna eru? Þarna eru stórar og erfiðar spurningar sem við verðum þó að hugleiða. Svarið verður auðvitað ekkert í þessari umræðu en ég hygg samt að við megum ekki draga það mjög lengi að leita að slíku svari því það hefur mikil áhrif hvernig við svörum þeirri spurningu um hvað eigi að verða um mannvirkin. Á að verða þarna draugabær sem Bandaríkjamenn vilja hafa svona til taks ef aðstæður skyldu breytast? Á að rífa öll mannvirkin, þessi glæsilegu mannvirki sem nýbúið er að taka í gegn eða á að nýta þetta til atvinnuuppbyggingar sem alþjóðlegt kvikmyndaver, háskólaþorp og aðrar slíkar hugmyndir sem menn hafa verið með í umræðunni? Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fara í gegnum þetta en útgangspunkturinn hlýtur þó alltaf að ráðast af niðurstöðunni úr samningaviðræðum við Bandaríkjamenn. Ég árétta að ég tel að Bandaríkjamenn hafi komið dólgslega fram við okkur sem þjóð og við hljótum að taka varnarsamninginn á þeim grunni til endurskoðunar.

Að lokum, frú forseti, þessari umræðu hlýtur einnig að fylgja hið eilífa deilumál um staðsetningu innanlandsflugsins. Nú verðum við að svara þeirri spurningu sem þjóð hvort við teljum okkur hafa efni á að reka tvo flugvelli og í loftlínu líklega ekki nema 40 km á milli þeirra. Það kostar vel á annan milljarð kr. að halda uppi rekstri flugvallar á Miðnesheiði og ætli það muni ekki kosta hátt í 500 millj. að reka Reykjavíkurflugvöll. Ef svo fer að borgarfulltrúar í Reykjavík taka ákvörðun um að vísa Reykjavíkurflugvelli burt þá þurfum við að svara því hvort við viljum byggja upp nýjan flugvöll sem sérfræðingar segja að kosti 10–12 milljarða kr. Höfum við efni á því, hafandi stóran og mikinn flugvöll í 40 km fjarlægð í loftlínu, á sama tíma og við erum að tvöfalda Reykjanesbraut og hugmyndir eru uppi um að setja jarðgöng frá Straumsvík og yfir í Kvosina? Þetta eru auðvitað spurningar sem hljóta að koma upp í kjölfarið en þær snerta auðvitað ekki það frumvarp sem hér er til umræðu, eru kannski frekar afleiðing af því og geri ég ráð fyrir að þegar þing kemur saman aftur í lok maí og í júnímánuði þá muni sú umræða fara fram. Ég árétta að efni þessa frumvarps er fagnaðarefni og fagna því enn frekar að það skuli stefna í að það renni í gegn á einum degi þannig að óvissu gagnvart starfsfólki verði eytt en tek undir þær spurningar sem hér hafa komið um hver kjör starfsmanna muni verða hjá hinum nýja húsbónda.