132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[15:08]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi taka það fram að þessu frumvarpi er sérstaklega teflt fram á þinginu til að eyða þeirri óvissu sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni. Síðan fer þetta mál til utanríkismálanefndar og þar verða hlutirnir eflaust skoðaðir enn frekar.

Mér þykir það ekki neitt sérstaklega dýr pólitík þegar menn stíga í tilefni af þessu frumvarpi fram og lýsa sig reiðubúna til að mæla fyrir einstaklega góðum starfslokasamningum til þeirra sem ekki fái framtíðarstarf á vellinum (Gripið fram í: Hver gerði það?) eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson gerði í sinni ræðu hér í dag. Ég var sérstaklega að vísa til þess. Mér þykir ekkert tilefni til slíks málflutnings og vil ítreka að það er ekkert í aðgerðum stjórnvalda í dag sem gefur annað til kynna en að menn séu einmitt sérstaklega að huga að málefnum starfsmannanna. Ef sú staða kemur upp í framtíðinni að hátt hlutfall eða mikill fjöldi starfsmanna, sem nú býr við örugg starfskjör á vellinum, muni ekki geta gengið að störfum sínum vísum til framtíðar geta menn gengið út frá því að gripið verði til aðgerða. En nú er ekki tími til að fara að lofa háum starfslokasamningum.