132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[15:12]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að brugðist sé við þeim tíðindum sem orðið hafa, að bandaríski herinn er að fara af landi brott á þessu ári og íslensk stjórnvöld þurfa að sjálfsögðu að endurskipuleggja fyrirkomulag og verkefni á Keflavíkurflugvelli í því ljósi. Þess vegna er ekki óeðlilegt að hæstv. ráðherra komi fram með frumvarp um viðbrögð til að greiða úr því máli. Þó verð ég að segja að ég hefði kosið að fá að sjá frumvarpið og fjalla um það áður en það var lagt fram á þingi sem stjórnarfrumvarp. Mér finnst óvenjulegt að hraðinn þurfi að vera svo mikill að ekki gefist ráðrúm til að kynna mál fyrir þingmönnum stjórnarliðsins og vænti þess að um undantekningu sé að ræða en ekki nýja reglu.

Í þessu máli velti ég fyrst og fremst fyrir mér skipulaginu sem lagt er til að tekið verði upp í ljósi annarra stjórnarfrumvarpa um Flugmálastjórn Íslands og stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur Flugmálastjórnar Íslands. Eftir því sem ég get best áttað mig á mun meiningin vera, ef við skoðum þessi þrjú frumvörp saman, að til verði Flugmálastjórn Íslands, sem verði stofnun, en síðan verði til sérstakt hlutafélag sem annist rekstur og flugleiðsöguþjónustu á flugvöllum í innanlandsflugi. Í þriðja lagi yrði svo til stofnun sem héti Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem annaðist stjórn, rekstur og uppbyggingu vallarins. Ég velti því fyrir mér hver stefnan er sem mörkuð er með þessum frumvörpum.

Hæstv. utanríkisráðherra gat þess í framsöguræðu sinni að þetta frumvarp sem hann leggur fram væri fyrstu viðbrögð við því ástandi sem komið er upp. En ég velti fyrir mér hvað verði næsta skref. Fari svo að hin frumvörpin tvö verði afgreidd á Alþingi, felur afgreiðsla þeirra þá í sér að meiningin sé að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar verði sérstök stofnun, þannig að einn flugvöllur landsins verði tekinn út úr skipulaginu og um hann stofnuð sérstök stofnun en allir aðrir flugvellir landsins verði í eigu hlutafélags og rekstur þeirra í höndum þeirra sem stjórna hlutafélaginu? Ef það er hugmyndin þá er eðlilegt að velta fyrir sér hvernig menn ætla sér að láta hlutina þróast til lengri tíma.

Ég tek eftir því að hið nýja hlutafélag á að geta eignast hluti í öðrum félögum og fyrirtækjum, jafnvel í óskyldum rekstri. Mun þá hlutafélagið um rekstur flugvallanna og flugleiðsöguþjónustuna síðar meir geta eignast og yfirtekið stofnunina Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar? Ef til vill þarf að flytja sérstakt frumvarp um að breyta þeirri stofnun í hlutafélag en í sjálfu sér væri eðlilegt að ætla, út frá stefnumörkuninni í hinum frumvörpunum tveimur, að það verði gert. Erum við þá að renna inn í þá framtíð að Keflavíkurflugvöllur verði hluti innan hlutafélags um flugvallarrekstur og flugleiðsöguþjónustu eða er meiningin að hafa millilandaflugvöllinn sér og innanlandsflugvellina sér? Það gæti út af fyrir sig verið stefnumörkun sem ástæða er til að skoða en ég spyr mig, og reyndar einnig flutningsmann málsins, um stefnuna í þessu máli, m.a. vegna þess að ég hef efasemdir um að gera sérstakt hlutafélag um rekstur innanlandsflugvalla, eins og boðað hefur verið með frumvarpinu, og fela því hlutafélagi uppbyggingu vallanna. Jafnvel þótt hlutafélagið eigi ekki að eiga brautirnar eða fasteignir mun það geta annast uppbyggingu vallanna og væntanlega mun það eiga þá uppbyggingu, hvort sem það eru flugbrautir eða fasteignir.

Ég minni á það sem fram kom hjá hæstv. utanríkisráðherra í umræðu um utanríkismál. Hann gat séð fyrir sér að einkavæða Keflavíkurflugvöll og selja brautirnar. Mér sýnist að menn gætu stefnt þangað eftir þessum frumvörpum sem lögð hafa verið fram, jafnvel þótt það yrði ekki í einum áfanga væru menn búnir að leggja kjölinn að stefnu sem leiddi menn til þess. Ég hef efasemdir, virðulegi forseti, um að leggja af stað í leiðangur þar sem stefnt er að því að einkavæða flugvellina. Það má hugsa sér að einkavæða rekstur þeirra að einhverju marki en ég á erfitt með að finna rök fyrir því að einkavæða eignirnar sjálfar og fela þær í hendur einhverra aðila, jafnvel þótt handhafar eða fulltrúar ríkisvaldsins færu fyrst um sinn með eignarhluta í því hlutafélagi, hvort sem það er eitt eða fleiri. Það hlýtur að leiða af sjálfu sér að meiningin er að selja þau hlutabréf en ekki að búa til hlutabréf sem ekki á að selja, það er mótsögn í sjálfu sér.

Ég vildi gjarnan fá skýrari línur frá hæstv. utanríkisráðherra um framtíðarsýn hans um stofnunina Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Ég tók eftir því að ráðherrann gat þess að hann sæi fyrir sér, sem mér finnst út af fyrir sig eðlilegt af hans hálfu, að þessi stofnun færðist undir samgönguráðuneytið þar sem starfsemin sem færi fram á flugvellinum væri fyrst og fremst borgaraleg. Ef það gerist þá hljóta menn í samgönguráðuneytinu að ætla sér að færa þessa stofnun, Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, undir það skipulag sem stjórnarfrumvörpin tvö draga upp, sem hafa verið lögð fram, rædd á þinginu og verið til meðferðar í samgöngunefnd. Þá erum við komin að því að sjá fyrir okkur að menn felli Keflavíkurflugvöll undir hlutafélag.

Ég held að það sé ástæða til að við skýrum aðeins framtíðarsýnina í þessum efnum. Ég vil taka skýrt fram að ég get fallist á að sjálfstæð stofnun reki Keflavíkurflugvöll. Ég hef engar athugasemdir við það og ég get út af fyrir sig líka tekið undir að sama stofnun væri með alla flugvellina. En ég hef miklar efasemdir og fyrirvara við að breyta þessu yfir í hlutafélag. Þar liggja efasemdir mínar og fyrirvarar um framtíðarstefnu í þessum efnum.

Mig langar líka að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um gjöldin í 3. gr. frumvarpsins. Þar er kveðið á um að tekjur af lendingargjöldum renni til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar. Sama gildir um öryggisgjald. Ég hef ekki haft ráðrúm til að fara í gegnum nauðsynleg lagaákvæði til að átta mig á þessu vegna þess að ég vissi ekki af þessu máli fyrr en í gær. Ég sá í dagblöðum að það væri komið fram. En er reyndin sú að þeim tekjum sem hingað til hafa verið innheimtar í lendingargjöld af Keflavíkurflugvelli hafi einvörðungu verið ráðstafað þar? Í greinargerð með frumvarpinu segir að þetta sé í samræmi við þá skipan mála sem tíðkast hefur. Það má skilja þannig að allar tekjur af lendingargjöldum á Keflavíkurflugvelli hafi runnið til Keflavíkurflugvallar. Ég hef hins vegar ekki áttað mig á því, hvorki í lögum um loftferðir né samgönguáætlun, hvort það sé svo. Þar er aðeins talað um flugvallargjald og afgreiðslugjald. Þau gjöld renna til Flugmálastjórnar og er síðan ráðstafað samkvæmt áætlun, óháð því á hvaða stöðum þau eru innheimt.

Vera kann að um það gildi einhver lög sem ég hef ekki haft tök á að kynna mér, sem skýra þetta. En mig langar að biðja hæstv. ráðherra að útskýra þetta betur þannig að það sé ótvírætt, sem má skilja af frumvarpinu, að lendingargjöldin á Keflavíkurflugvelli hafi hingað til eingöngu verið nýtt þar. Ef hitt væri staðreyndin, sem ég set spurningarmerki við og er ástæðan fyrir því að ég spyr, þá væri kominn upp vandi vegna þess að þá værum við að ráðstafa tekjum til Keflavíkurflugvallar sem menn hefðu í samgönguáætlun ráðstafað á aðra flugvelli. Ef við tækjum þær tekjur í burt þá settum við tekjuöflun framkvæmda á þeim flugvöllum í uppnám. Það verður því að vera alveg skýrt að svo sé ekki.

Síðan var rætt aðeins um Reykjavíkurflugvöll. Mig langar að leggja nokkur orð inn í þá umræðu. Satt að segja hefur umræðan um Reykjavíkurflugvöll, flugvöllinn í Vatnsmýrinni, verið með slíkum endemum undanfarin ár að það er fátítt að upplifa pólitíska umræðu um stefnu í mikilvægu máli sem rekin er með svo óljósum forsendum og litlum upplýsingum sem raun ber vitni. Umræðan um að fara með Reykjavíkurflugvöll til Keflavíkur var þessu marki brennd en breyttist til verulegra bóta þegar ýmsir hagsmunaaðilar tóku við sér og blönduðu sér í opinbera umræðu um málið, svo sem flugmenn, læknar og sveitarstjórnarmenn af landsbyggðinni, og drógu fram þau rök sem eru fyrir því að hafa flugvöll í Reykjavík við sjúkrahúsið, í ljósi sjúkraflugs og annarra þarfa þeirra sem búa úti á landi. Eftir það breyttist umræðan. Nú fyrir borgarstjórnarkosningarnar, í þessum mánuði, er enginn flokkur sem boðar það að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni til Keflavíkur. Enginn. Og það er mikil bót í umræðunni að menn skuli fallnir frá þeim hugmyndum að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Það sýnir að það hefur skilað árangri að koma með rök og upplýsingarnar inn í umræðuna.

Nú er aðeins tekist á um hvort flytja eigi flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og eitthvert annað innan höfuðborgarinnar eða í nágrenni hennar. Það er miklu heilbrigðari umræða heldur en hin fyrri, sem beinlínis gekk út á að gengið skyldi á mikilvæga hagsmuni fólks sem býr utan höfuðborgarsvæðisins. Mér finnst reyndar, ef við ræðum það mál, meiri rök fyrir því að flytja millilandaflugið frá Keflavík til Reykjavíkur en að flytja innanlandsflugið frá Reykjavík til Keflavíkur. Ég hef svo sem ekki kynnt mér hvort það væri mögulegt en Reykjavík er varaflugvöllur þannig að a.m.k. er hægt að vera með millilandaflug á honum. En það væri þá a.m.k. skynsamlegri ráðstöfun vegna þess að sá fjöldi sem lendir í Keflavík er fyrst og fremst að ferðast til Reykjavíkur. Við mundum stytta ferðatíma þess mikla fjölda, bæði Íslendinga og erlendra ferðamanna. Það væri hagkvæmt ef á annað borð væri mögulegt að hafa millilandaflugið hér, sem ég veit ekkert um og ætla svo sem ekki að leggja til neinar breytingar á núverandi fyrirkomulagi.

Ég segi einfaldlega: Ef menn ætla að breyta þessu frá því að hafa millilandaflugið í Keflavík og innanlandsflugið í Reykjavík þá eru meiri rök fyrir því að skoða hvort flytja eigi millilandaflugið til höfuðborgarinnar en að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Það er augljóst mál og það sjá allir sanngjarnir menn þegar þeir hugsa smástund um málið.

Ég spái því að umræðunni um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar ljúki fyrir kosningar núna með þeirri niðurstöðu að völlurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, hugsanlega með einhverjum breytingum, menn breyti legu flugbrauta eða eitthvað slíkt, og skapi þannig pláss fyrir uppbyggingu sem óskað er eftir, ef það er mögulegt. Menn eiga eftir að skoða það. Ég spái því að það verði niðurstaðan, hugsanlega einhverjar tilfærslur á brautum en meginniðurstaðan verði sú að völlurinn verður áfram í Vatnsmýrinni, enda er það eina skynsamlega niðurstaðan.

Hólmsheiði held ég að sé slæmur kostur. Ég ætla svo sem ekki að fara út í það frekar en um Löngusker má segja að ef Lönguskerjaflugvöllur væri kostur þá dæmdi sá kostur flugvöllinn úr leik. Ef það er hægt að vera með flugvöll á Lönguskerjum þá er hægt að vera þar með íbúðabyggð. Væntanlega væri miklu meira upp úr því að hafa að byggja íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði á þeim skerjum heldur en flugbrautir. Sá fjárhagslegi ávinningur mun einfaldlega reka flugvöllinn af Lönguskerjunum eitthvað enn þá lengra. Þannig sé ég þetta mál fyrir mér, að völlurinn verði einfaldlega í megindráttum þar sem hann er. Ég held að það væri líka langbesta niðurstaðan, virðulegi forseti.