132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[15:29]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé örugglega tæknilega mögulegt að gera flugvöll á Lönguskerjum. Ég er í engum vafa um að menn ráða við að leysa það verkefni. Hins vegar er augljóslega miklu dýrara að gera flugvöll í sjó heldur en flugvöll á landi. Það segir sig sjálft. Menn þurfa að leggja út í kostnað við uppfyllingu, brimvörn og annað slíkt. Það er augljóst að kostnaður við gerð flugvallar á Lönguskerjum verður miklu meiri en sambærilegs mannvirkis á landi. Þess vegna held ég að Vatnsmýrin hafi alltaf yfirburði yfir nýjan flugvöll sem yrði úti á sjó.

Ég hef aðeins rýnt í tölur um mögulegar stærðir í þessum efnum. Mér sýnist að þetta gætu verið a.m.k. 10 millj. rúmmetra af fyllingu sem þyrfti, fyrir utan brimvörnina. Menn hafa nefnt jarðgöng í gegnum Öskjuhlíðina og að efni úr henni gæti nýst í þessa miklu landfyllingu sem þyrfti að vera. (Gripið fram í.) Það er brot af því sem þarf. Það sem kæmi út úr göngum í Öskjuhlíðinni væri hugsanlega 1%, jafnvel innan við 1% af því sem þyrfti að fylla upp í á Lönguskerjum. Það hefur þannig enga þýðingu upp á það mál.