132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[15:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Það er nú það, frú forseti, er ekki ástæða til að efast? Hræða ekki sporin, framganga stjórnvalda, þeirra hinna sömu sem hér er við að eiga, á undanförnum missirum í mörgum tilvikum? Er það ekki staðreynd að tekinn hefur verið réttur af mönnum einmitt við breytingar á ríkisfyrirtækjum í hlutafélög? Svo vísa menn í þá skerðingu þegar þeir halda áfram og taka til við að breyta næstu stofnun, eins og útvarpinu, rafmagnsveitunum eða hvað það nú er. Þá er bara vísað til þess sem gert var þegar Síminn var tekinn.

Varðandi það að stjórnvöld hafi talað tæpitungulaust og komið svo vel fram og staðið svo vel að því hingað til sem varðar Keflavíkurflugvöll, þá má nú efast um það. Er það ekki staðreynd að þarna hafa hundruð manna gengið með uppsagnarbréfið upp á vasann undanfarnar vikur og mánuði án þess að við þá hafi verið talað? Síðast í gærkvöldi fékk ég tölvupóst frá forsvarsmanni eins hópsins þar sem hann kvartaði einmitt undan því að þeir væru óánægðir með að vita ekkert um sín mál og hafa beðið í óvissunni allan þennan tíma. Er sú frammistaða til fyrirmyndar að koma ekki saman starfshópnum með heimamönnum svo vikum skiptir? Það er ekki beinlínis til að undirbyggja þá lýsingu á frammistöðu stjórnvalda sem hv. þm. Bjarni Benediktsson var að tala um. Sanngjörn starfslokakjör eiga auðvitað að vera inni í myndinni sem úrræði eins og önnur við þessar aðstæður. Það er eðli málsins samkvæmt bæði rétt og skylt. Þess vegna er eðlilegt að menn taki því ekkert endilega vel þegar hv. þingmaður leggur lykkju á leið sína til að mótmæla því að það sé rætt. Jafnvel þó að honum kunni að þykja orðalagið sem þar er notað af hálfu einstakra þingmanna ekki endilega það rétta, þá er alveg fráleitt annað en að ræða megi þann kost og þann möguleika gagnvart þeim sem það kjósa að þeim standi þá til boða sanngjörn starfslokakjör og það kemur væntanlega til með að eiga við í einhverjum tilvikum að menn teldu sér slíkt hagstæðast.