132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Framhaldsskólar.

711. mál
[16:14]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að nefndarmenn í hv. menntamálanefnd voru sammála um að fara þessa leið og afnema samræmdu stúdentsprófin og ég get tekið undir það með hv. þingmanni að vinnan við það gekk í alla staði mjög vel.

Hann varpar þeirri spurningu til mín hvort rétt sé að endurskoða samræmt próf í grunnskólum. Ég ætla svo sem ekkert að útiloka það að mögulegt sé að gera það í náinni framtíð ef það verður til þess að bæta menntakerfið. Ég bendi hins vegar á að þessi samræmdu próf voru líklega tekin upp um 1929 og hafa verið við lýði þá í rúma átta áratugi og að mörgu leyti gefist vel en á þessu kunna að vera ákveðnir vankantar. Ég tel hins vegar að ekkert sé því til fyrirstöðu að menn velti því fyrir sér hvort rétt sé að gera á þessum samræmdu prófum einhverjar breytingar en þó aðeins að því gefnu að það verði til að bæta menntakerfið okkar. Ég skal ekki kveða upp úr um það hér og nú hvort sú breyting muni leiða til þess en það kann vel að vera og ég hlýt, eins og allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að vera opinn fyrir öllum breytingum sem kunna að verða til bóta í menntakerfinu.

Ég vona að þetta svar mitt hafi verið hreinskilið og svarað spurningu hv. þingmanns.