132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Framhaldsskólar.

711. mál
[16:22]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegur dagur í íslenskri skólasögu í dag þar sem við erum að leggja af og afnema samræmd stúdentspróf en segja má að þau hafi aldrei náð neinni stöðu í íslensku skólakerfi. Prófin voru tekin upp fyrir nokkrum missirum og þá strax ollu þau deilum og gagnrýni enda kom fljótlega í ljós að samræmd stúdentspróf voru ákaflega vond hugmynd. Þá bættist við að framkvæmd prófanna var ekki vel heppnuð sem leiddi að lokum til þess að þegar prófin áttu að lokum að koma til fullra framkvæmda á liðnu hausti að nemendur fóru í setuverkfall. Á bilinu 65–80% stúdentsefna í framhaldsskólum landsins tóku ekki prófin þannig að nemendur risu upp gegn prófunum sjálfir og það strax þegar þau komu fram á sínum tíma. Enda held ég að þau hafi aldrei verið mjög vel ígrunduð og það séu allt aðrar leiðir færari og betri til að annars vegar mæla þekkingu og kunnáttu stúdentsefna í framhaldsskólunum og hins vegar kannski það sem var hinn eiginlegi tilgangur prófanna, að verða einhvers konar inntökupróf í háskólanum. Prófin áttu að gegna þeim tilgangi að sýna samræmda mælingu á getu nemenda í tilteknum fögum þannig að háskólarnir sem það kysu eða tilteknar deildir háskólanna gætu notað þau sem viðmið. Allt voru þetta að mínu mati vondar hugmyndir og háskólarnir eiga að hafa uppi allt aðrar aðferðir til að meta nemendur inn í deildir sínar en samræmd stúdentspróf. Það geta háskólarnir gert með inntökuprófum eða einhverjum allt öðrum og mikið sanngjarnari hætti. Prófafargan framhaldsskólanna er með þeim hætti að það er ekki á það bætandi. Í praxís varð einn helsti tilgangur þeirra að vera inntökupróf í framhaldsskólana. Sem slík voru þau vafasöm tæki enda til betri og sanngjarnari leiðir til að prófa inn í háskóla. Það var einnig mat skólanna sjálfra.

Upphaflega þegar samræmdu stúdentsprófin áttu að koma til framkvæmda árið 2003 tókum við samfylkingarþingmenn málið upp í fyrirspurnatíma við hæstv. þáverandi menntamálaráðherra Tómas Inga Olrich. Það var 19. febrúar 2003 og í framhaldi af því fórum við í fundaherferð í framhaldsskólana þar sem við nokkrir þingmenn Samfylkingar og frambjóðendur börðumst mjög fyrir því að prófin yrðu aflögð og þeim yrði frestað. Síðan þá hefur staðið yfir má segja þriggja ára þras við hæstv. menntamálaráðherra um samræmd stúdentspróf þar sem hæstv. menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins tóku það ekki í mál í fyrstu að afleggja prófin, töldu að ekki yrði til baka snúið og það yrði að láta reyna á það enn frekar hvort prófin mundu öðlast gildi innan skólanna og hvort í þau ætti að halda. Hæstv. þáverandi menntamálaráðherra svaraði mér í fyrirspurnatíma um þetta fyrir rúmum þremur árum, með leyfi forseta:

„Lengi hefur verið gagnrýnt að einkunnir á stúdentsprófum í framhaldsskólum séu ekki sambærilegar og því er það í raun réttlætismál fyrir nemendur að fá að þreyta samræmd próf. Á þann hátt er mögulegt að leggja hlutlægt mat á frammistöðu þeirra, auk þess sem prófin gefa fræðsluyfirvöldum mikilvægar upplýsingar um skólakerfið og almennan námsárangur nemenda. Prófin geta einnig verið tæki fyrir kennara og skóla til að meta kennslu sína og skipuleggja starf sitt. Auk þess auðvelda prófin viðtökuskólum réttláta inntöku nemenda.“

Ég er ósammála þáverandi ráðherra sjálfstæðismanna í menntamálum í öllum atriðum þarna. Það kom fram í þessari umræðu en þáverandi menntamálaráðherra þrástagaðist á því að það væri réttlætismál að halda úti samræmdum stúdentsprófum hvað sem tautaði og raulaði. Um þann ráðherra varð nokkuð brátt í íslenskri pólitík og hann er nú sendiherra úti í París. Nýr menntamálaráðherra tók við lyklavöldum fyrir nokkrum missirum og síðan þá hefur málið að sjálfsögðu oft og einatt verið til umræðu en það var ekki fyrr en í umræðum utan dagskrár á Alþingi við Samfylkinguna í desember að hæstv. menntamálaráðherra féllst á að endurskoða samræmd próf eftir fjögurra ára baráttu ýmissa stjórnmálamanna og glæsilega framgöngu framhaldsskólanema sjálfra sem héldu úti óslitinni baráttu gegn samræmdum stúdentsprófum af því að þau einfaldlega vissu sem var að þau voru ranglát og áttu ekki rétt á sér. Samræmdu stúdentsprófin voru vond hugmynd alveg eins og ég tel að samræmd lokapróf í grunnskóla séu vond hugmynd, úrelt og eigi að leggja af líka eins og ég kom aðeins inn á í andsvörum við hv. formann menntamálanefndar áðan.

En sem betur fer er víðsýnna fólk fyrir Sjálfstæðisflokkinn á þingi nú en þá og nú hafa hv. formaður menntamálanefndar og hæstv. menntamálaráðherra gefið það eftir að láta af baráttu sinni fyrir samræmdum stúdentsprófum, að þeim sé best fyrir komið með því að leggja þau af, hlusta þannig á skólasamfélagið sjálft þar sem það virtist vera mikil meirihlutaskoðun bæði nemenda, kennara og skólastjórnenda að prófin væru tilgangslaus, þau gerðu ekkert annað en íþyngja nemendum og skólunum sjálfum. Þau væru auk þess dýr og kostnaðarsöm í skólakerfi sem er fjársvelt með þeim hætti að ár hvert gengur mjög illa að tryggja öllum nýnemum og ég tala ekki um þeim sem ætla að snúa aftur til náms, vist í skólunum. Í því efni hafa komið fram verulegar áhyggjur af aðsókn að framhaldsskólunum þar sem t.d. Þorsteinn Þorsteinsson, formaður Skólameistarafélags Íslands og skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ, hefur miklar áhyggjur af því af því að í vor útskrifast stærsti árgangur Íslandssögunnar úr grunnskólum landsins. Þessi árgangur er einfaldlega fjölmennasti og stærsti árgangur sem nokkurn tíma hefur fæðst á Íslandi og miðað við hve illa hæstv. menntamálaráðherra gekk að tryggja öllum nýnemum skólavist í fyrra og hittiðfyrra þá er ástæða til að hafa áhyggjur af því nú að menntamálayfirvöld standi sig í stykkinu. Sérstaklega hafa þau brugðist þeim sem vildu snúa aftur til náms eftir að hafa hætt námi tímabundið eða fallið á brott eins og stundum er sagt og sneru aftur til náms. Að hefja nám á nýjan leik á að vera algerlega sjálfsagt mál og jafnsjálfsagt mál og að setjast á skólabekk í grunnskóla og þeir nemendur ættu að eiga skilyrðislausan rétt á því að fá inni í framhaldsskóla til að mennta sig hvort sem það er starfsnámsbraut eða bóknámsbraut. Þarna brugðust yfirvöld og ég ætla rétt að vona að þau standi betur að málum nú og ég vil nota þetta tækifæri á þessum síðasta degi fyrir þingfrestun til 30. maí og skora á hæstv. menntamálaráðherra að tryggja það að þessi stærsti árgangur Íslandssögunnar, sem í leiðinni getur fagnað því að þurfa ekki að þreyta samræmd stúdentspróf síðar á lífsleiðinni, fái inni í framhaldsskólunum.

Ef hæstv. menntamálaráðherra hefði verið viðstaddur umræðuna í dag, eins og ég hélt og vonaði, hefði verið ástæða til að spyrja hana að þessu í leiðinni, til að nota ferðina eins og þar er sagt. En við skulum vona að brýning frá formanni Skólameistarafélagsins verði til þess að menntamálayfirvöld taki sig saman í andlitinu og tryggi öllum nýnemum skólavist í íslenskum framhaldsskóla í vor og einnig þeim sem vilja snúa aftur til náms.

En svona rétt í lokin, af því að við ætluðum ekki að hafa þessa umræðu langa, er ástæða til að fagna því sem gerist allt of sjaldan á Alþingi Íslendinga að þverpólitísk samstaða náist um góð mál. Sjálfstæðisflokkurinn hefur yfirleitt tekið þá stefnu í menntamálum á síðustu missirum að vera á móti því sem Samfylkingin talar fyrir. Það er ákaflega dapurleg pólitísk nálgun en þannig finnst mér veruleikinn vera. Ég fagnaði því sinnaskiptum forustumanna sjálfstæðismanna í menntamálum mjög þegar þeir féllust á kröfur okkar í stjórnarandstöðunni á Alþingi og kröfur skólasamfélagsins um að leggja af samræmd stúdentspróf. Ég fagnaði því mjög.

Það var annað merkilegt sem kom til umræðu í nefndinni og við tókum upp í menntamálanefnd. Það tengist því að í því frumvarpi sem við erum að samþykkja er einnig verið að lögbinda heiti á tveimur bóknámsbrautum, viðskipta- og hagfræðibraut bætast við bóknámsbrautir framhaldsskóla um leið og samræmdu stúdentsprófin í tilteknum greinum verða felld niður. Okkur varð þá ljóst að það væri mikil hugsunarvilla að lögbinda tiltekið heiti á bóknámsbraut. Við tókum það upp í nefndinni, stjórnarandstöðuþingmenn, að við vildum breyta lögunum í þá átt að engar greinar væru lögbundnar heldur hefðu skólarnir sjálfdæmi um það, út frá að sjálfsögðu námskrá og reglugerðum, hvaða samsetningu náms þeir byðu upp á.

Nemendur eiga að sjálfsögðu að geta sett nám sitt saman sjálfir og miða þá við þær kröfur sem háskólinn sem þeir ætla í gerir. Það á að sjálfsögðu að gefa skólunum frelsi og sjálfstæði til að setja nám sitt fram sjálfir og alger hugsunarvilla að lögbinda slík bóknámsheiti. Það er óþarfa miðstýring og það er röng nálgun. Þetta kom skýrt fram á fundi menntamálanefndar þar sem við fengum munnlegar umsagnir nokkurra skólameistara og forustumanna Skólameistarafélagsins og Félags íslenskra framhaldsskóla sem tóku mjög undir þetta og tóku þetta mál einnig upp að fyrra bragði. Þingmenn í nefndinni tóku einnig undir þetta og við meðferð málsins fór það inn í nefndarálitið, með leyfi forseta:

„… að það kynni að orka tvímælis að binda heiti bóknámsbrauta í lögum eins og nú er gert. Nefndin telur hins vegar að ekki séu efni til þess að taka afstöðu til þess álitaefnis við meðferð þessa frumvarps, enda kalli slík breyting á efnismeiri umræðu innan Alþingis og nefndarinnar.

Nefndin beinir því hins vegar til menntamálaráðherra að taka til sérstakrar athugunar hvort ástæða sé til þess að afnema þessa lögbindingu.“

Eftir að þessi málsgrein var sett í nefndarálitið skrifuðum við að sjálfsögðu upp á það, enda höfum við lengi barist fyrir afnámi og niðurfellingu samræmdra stúdentsprófa. Ekki var annað að heyra en það væri þverpólitískur skilningur nefndarmanna að það væri tímaskekkja að lögbinda bóknámsbrautaheiti sérstaklega. Þau á að sjálfsögðu að afnema í lögum og skólarnir eiga að fá frelsi til að bjóða upp á þær greinar, hvað svo sem þær heita, sem þeim finnst nauðsynlegar. Að auki má nefna að þær breytur sem hér er verið að lögbinda eru í sjálfu sér löngu komnar til í skólunum. Þær vantaði einungis lögformlega stöðu í kerfinu.

Það á ekki að þurfa lagabreytingu, virðulegi forseti, til að bregðast við þróun og breytingum í skólakerfinu. Það er þunglamalegt og rangt. Ég gat fundið það sterkt í nefndinni að þar ríkir skilningur á þessu viðhorfi. Ég vona að í haust munum við taka til meðferðar á Alþingi og síðan í menntamálanefnd frumvarp þar sem við höfum tíma til að taka efnismikla umræðu um að breyta lögunum í þá veru að engar bóknámsbrautir séu lögbundnar þar.

Þetta eru skref í framfaraátt. Þetta eru framfaraskref í íslenskum skólamálum, rétt eins og það er stórt framfaraskref í íslenskum skólamálum að leggja af samræmd stúdentspróf. Ég fagna því eindregið að við stöndum á þeim tímamótum nú við þingfrestun 4. maí, áður en við göngum til sveitarstjórnarkosninga og síðan aftur til Alþingis í sumar, að fella niður samræmd stúdentspróf. Fyrir því hafa Samfylkingin og ýmsir aðrir barist í þrjú ár. Ég fagna því mjög eindregið.

Virðulegi forseti. Þó svo að þessi lagabreyting gefi tilefni til margvíslegrar umræðu um skólamál þá látum við hana bíða betri tíma enda fyrirheit um það í nefndarálitinu frá hv. menntamálanefnd, fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna sem þar eiga sæti, að næsta vetur muni fara fram efnismikil umræða um það hvernig hægt er að breyta íslensku skólakerfi til hins betra.

Við, ég og hæstv. menntamálaráðherra, ræddum nokkuð harkalega nú í vetur fyrirhugaða styttingu eða skerðingu náms til stúdentsprófs. Menntamálaráðherra féll að nokkru leyti frá því, bakkaði með það og frestaði því, m.a. út af kröfum okkar í stjórnarandstöðunni og kröfum skólasamfélagsins. Samkomulag náðist við skólasamfélagið um tiltekin atriði og ég vona að þau gangi eftir. En hæstv. menntamálaráðherra sagði í umræðum við Samfylkinguna á þingi 15. febrúar á þessu ári, með leyfi forseta:

„Ég get upplýst um að frumvarp er snertir framhaldsskólann kemur inn í þingið á vordögum en ég mun vinna það í samvinnu og samráði við kennaraforustuna.“

Þarna var hún að tala um það sem lýtur að styttingu eða skerðingu náms. Ég ætlaði því að spyrja hæstv. ráðherra hvort það mál kæmi inn í þingið á þessu þingi árið 2006, hvort það biði næsta vetrar eða hvort það heyrði sögunni til. Ég vona að það heyri sögunni til af því að það er rangt að skerða nám til stúdentsprófs eða skerða nám í íslenskum framhaldsskólum. Það á að byggja undir það og gera það fjölbreyttara. Það á að fella niður skil á milli skólastiga, veita þeim nemendum sem hraðar vilja fara frelsi til þess, hinum sem á því þurfa að halda tíma til að vera lengur. Það er ekkert nema ávinningur af því að halda unga fólkinu við nám hvort sem það er önninni lengur eða skemur.

Það er alger ranghugsun, þessi kassahugsun hæstv. menntamálaráðherra um skólakerfið, að það verði skera hér og þar og hraða ungmennunum í gegn. Sú hugsun tengist því kannski að nú eru stærstu árgangar Íslandssögunnar að koma upp úr grunnskólunum inn í framhaldsskólana og menntamálayfirvöld hafa ekki undirbúið það með þeim hætti að það gangi vandræðalaust. Mörg ungmenni sem eru að sækja um skólavist lenda á vergangi. Það er ámælisvert hvernig menntamálayfirvöld hafa staðið sig hvað varðar framhaldsskólann.

Mun betur er staðið að grunnskólanum og öllu þar eftir að sveitarfélögin tóku við honum fyrir um 11 árum. Háskólastigið þróast mjög og blómstrar að mörgu leyti og leikskólinn eftir að jafnaðarmenn, Reykjavíkurlistinn og félagshyggjufólk út um allt land, hófu að byggja upp það skólastig fyrir 12 árum, skólastig sem var ekki til hjá Sjálfstæðisflokknum. Við getum því líka fagnað því að nú 12 árum eftir að Reykjavíkurlistinn tók við völdum er gjaldfrjáls leikskóli eða niðurfelling á leikskólagjöldum aðalkosningamál allra flokka. En ekki meira um það.

Rétt í lokin vildi ég skora á hæstv. menntamálayfirvöld, og fagna því að hv. formaður menntamálanefndar tók undir þá hugmynd mína, að endurskoða samræmd lokapróf í grunnskólunum. Að mínu mati á að leggja þau af. Þau hafa lengi tíðkast og lítil gagnrýni verið á gildi þeirra og tilgang. Einnig hefur lítið verið skoðað hvernig mælitæki þeir eru á færni nemenda við þau tímamót að þeir ljúka skyldunámi. Á sama tíma hefur verið deilt hart um samræmd próf í framhaldsskólum sem við leggjum nú af.

Ég held sjálfur, frú forseti, að við eigum að endurskoða samræmd lokapróf í 8., 9. og 10. bekk grunnskólans. Ég hef sjálfur verið á þeirri skoðun að við eigum að fella þau niður og leita annarra leiða til að mæla færni nemenda. Prófin mæla einungis í litlum mæli þá færni sem mestu skiptir, svo sem mannleg samskipti og lífsleikni hvers konar. Án efa yrði líka til mikilla bóta að taka með einhverjum hætti verklegar greinar inn í slíka mælingu. Nýsköpunarnám er á mikilli uppleið í framhaldsskólunum, verktengt nýsköpunarnám, frábærlega sniðugt nám sem er víða ástundað af miklum krafti. Ég tel að það ætti að endurskoða þetta allt saman algerlega frá grunni.

Samræmdu lokaprófin í grunnskólunum eru tímaskekkja á sama hátt og samræmdu prófin í framhaldsskólunum, arfur frá liðinni tíð og úrelt hugsun. Í praxís er tilgangur samræmdra lokaprófa grunnskólanna fyrst og fremst að vera inntökupróf í framhaldsskólana og sem slík eru þau vafasöm tæki. Það eru til betri og sanngjarnari leiðir til inntöku í þá en samræmdu lokaprófin. Þá er það einnig mál framhaldsskólanna sjálfra hvernig þeir velja nemendur inn og þá með hvaða hætti. Eins er það mál háskólanna sjálfra að velja nemendur inn í sínar deildir, ekki framhaldsskólanna. Það er ekki verkefni þeirra að mæla nemendur með samræmdum prófum.

Um leið og við fögnum því að samræmd stúdentspróf heyra sögunni til legg ég því til að samræmd lokapróf í grunnskólum verði endurskoðuð. Það leiðir vonandi til þess að næsta vetur eða kannski eftir ár getum við fagnað því að þau heyri sögunni til. Þá verður búið að frelsa íslenskt skólakerfi frá þeirri áráttu sem felst í samræmdum prófum sem einhverri hagmælingu á getu nemenda, algerlega úreltu tæki sem mælir ekki það sem máli skiptir.

Ég skora á hæstv. yfirvöld menntamála að nota sumarið vel til að endurskoða samræmd lokapróf í grunnskólum, 8., 9. og 10. bekk, þannig að við getum lagt þau af. Ég er sannfærður um að við mundum geta lagt þau af áður en þetta kjörtímabil verður úti. Hæstv. menntamálaráðherra fengi því þá framgengt líka auk þess að verða við kröfum okkar í Samfylkingunni um að leggja niður samræmt stúdentspróf.