132. löggjafarþing — 115. fundur,  4. maí 2006.

Svar við fyrirspurn.

[19:50]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Enn og aftur staðfestir hæstv. fjármálaráðherra í svari sínu til Alþingis þá staðreynd að skattbyrði á Íslandi hefur aukist verulega frá árinu 1995 til dagsins í dag. Það er alveg sama hvernig við reiknum, alveg nákvæmlega sama hvort við notum launavísitölu eða hvort við notum vísitölu neysluverðs, skattbyrðin hefur aukist á alla hópa.

Ég þarf varla að minna hv. þingmenn á niðurstöðu í Kastljóssþætti sem fór yfir skattbreytingar á Íslandi á þessum tíma. Þar var farið yfir og skoðað hvernig skattbreytingin hefði verið miðað við neysluvísitölu og þar kom fram að 70% allra skattgreiðenda á Íslandi væri hærri skattbyrði nú en á árinu 1995 þótt miðað væri við neysluvísitölu. Ef miðað er við launavísitöluna sem mælir breytingu launa þá borga allir nema þeir allra hæst launuðu, þ.e. þeir sem eru komnir með yfir milljón í mánaðarlaun, hærra hlutfall af launum sínum í skatta en þeir gerðu árið 1995.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði um að bera saman sömu hluti. Muna hv. þingmenn eftir fyrirspurn frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem spurði hvernig skattbyrði hefði breyst á 100 þús. kr. laun? Þá tóku menn og báru saman skattbyrði á 100 þús. kr. á árinu 1995 og 100 þús. kr. á árinu 2006, sömu krónutölu. Eru það sambærilegir hlutir? Eru menn að bera saman epli og epli þar eða eru menn að bera saman mandarínu og appelsínu? Ég held að það væri rétt og meiri mannsbragur að því hjá hæstv. fjármálaráðherra að viðurkenna þá staðreynd sem alls staðar blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn hefur kerfisbundið verið að hækka skatta á lægstu laun á sama tíma og kerfisbundið hefur verið unnið í því að lækka skatta á þá sem lægstu launin hafa. Þetta ber að viðurkenna, hæstv. fjármálaráðherra.