132. löggjafarþing — 115. fundur,  4. maí 2006.

Svar við fyrirspurn.

[19:55]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta eru mjög athyglisverðar upplýsingar sem koma fram í þessu svari fjármálaráðherra við fyrirspurn frá þingmönnum Samfylkingarinnar og þær staðfesta það sem hefur komið fram hjá prófessor við Háskóla Íslands, hjá ríkisskattstjóra og hjá fjölmörgum aðilum að skattbyrðin í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur verið að þyngjast hjá flestöllum nema þeim sem eru í hæsta tekjuhópnum. Það sem er merkilegt við þetta er að í gegnum skattkerfi og bótakerfi ríkisins ræður ríkið yfir mjög öflugu tæki til tekjujöfnunar sem er, af því að það var komið inn á sveitarfélögin, nokkuð ólíkt því sem gildir um sveitarfélög vegna þess að þau eiga að leggja sömu útsvarsprósentu á alla íbúa í sveitarfélaginu án tillits til tekna. Ríkisvaldið hefur hins vegar öflug jöfnunartæki á sínum vegum.

En hvað hefur gerst á því tímabili sem þessi ríkisstjórn hefur setið? Ef við horfum annars vegar á markaðinn, það er eðlilegt því markaðurinn eykur stundum ójöfnuð, og horfum á þau 10% sem eru með lægstar tekjur og þau 10% sem eru með hæstar tekjur þá sjáum við að ójöfnuður fyrir skatt hefur aukist um 18% á milli þessara hópa. Síðan koma til þau tæki sem ríkið hefur sem er skattkerfið og bótakerfið. Hvað gerist þegar búið er að nýta þau öflugu tæki? Þá hefur ójöfnuðurinn aukist um 43%. Þetta eru þau tæki sem ríkið hefur til að auka jöfnuð sem eru nýtt með þeim hætti að ójöfnuður eykst í samfélaginu. Svona stendur þessi ríkisstjórn að verki og þetta hefur verið að gerast smátt og smátt í þau 10 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með fjármálaráðuneytið og ráðið för í þessum málum.