132. löggjafarþing — 115. fundur,  4. maí 2006.

Svar við fyrirspurn.

[20:01]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Þetta er ákaflega einkennileg umræða um störf þingsins rétt áður en við frestum störfum Alþingis. Það er auðvitað merkilegt að sjá hv. þingmenn Samfylkingarinnar koma hér hvern á fætur öðrum til að ræða störf þingsins og af hverju skyldi það vera? Það er annað tveggja, til að tefja störf þingsins eða til að nýta (Gripið fram í.) síðustu ljóstýruna af kastljósi fjölmiðlanna, ef það mætti verða til þess að menn gætu komið sér á framfæri í síðasta skipti fyrir kosningar. (Gripið fram í.)

Það er rétt að taka fram að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið hér á hlaupum á eftir hverjum einasta fjölmiðlamanni sem komið hefur í þinghúsið í dag til þess að vekja athygli á þessu svari sínu. Og það er greinilega ekki nóg, það þarf að bæta um betur. En það sem skiptir fyrst og fremst máli þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar koma hver á fætur öðrum upp í pontu er kannski að minnast á hverjar tillögur Samfylkingarinnar í skattamálum eru. (Gripið fram í.) Hverjar eru tillögur formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur? Hvað var það sem hún lagði til um daginn? Að lækka skatta? Nei, að hætta við fyrirhugaðar skattalækkanir. Það er rétt fyrir hv. þingmenn að muna eftir þessu.

Þessi umræða, hæstv. forseti, er ekki einu sinni fyndin, hún er hlægileg. Og ég minni á að það er ekki það sama að vera fyndinn og hlægilegur.