132. löggjafarþing — 115. fundur,  4. maí 2006.

Svar við fyrirspurn.

[20:03]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Í dag er sá dagur hjá Samfylkingunni þegar skattar hafa ekki lækkað. Suma dagana hafa skattarnir hins vegar lækkað og þá er það ríkisstjórninni til vansa að hafa lækkað skattana, í dag er það ríkisstjórninni til vansa að hafa hækkað skattana.

Ég hefði gjarnan vilja hafa svolítið meiri stöðugleika í þessum samskiptum við Samfylkinguna til þess að hægara væri að vita úr hvaða átt maður á að svara hv. þingmönnum en ég fæ víst engu ráðið um það. Ef menn vilja hins vegar meta hvaða áhrif skattalækkanir ríkisstjórnarinnar hafa haft þá skoða menn það á nafnvirðisgrundvelli. Ef menn vilja meta hvað greitt var í skatta af jafngildum launum fyrir tíu árum og hvað greitt er í skatta af þeim í dag þá færa menn upp með neysluverðsvísitölu, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði að væri eina rétta leiðin til að meta þetta (Gripið fram í.) fyrir nokkrum vikum síðan. Þá er niðurstaðan sú hjá öllum sem á annað borð borga tekjuskatt að skattbyrðin hjá þeim hefur lækkað. Það eru engar aðrar niðurstöður til um það sem reiknaðar eru á þessum forsendum.

Frú forseti. Vitleysan verður ekkert réttari þó að fleiri endurtaki hana. Það er alveg til í dæminu að prófessorar við merka háskóla fari með staðlausa stafi. Það hefur oft gerst áður. Og það er alveg til í dæminu að annars ágætir fréttamenn fari með staðlausa stafi. Við þekkjum öll dæmi um það. (Gripið fram í.) Það er alveg til í dæminu. Staðreyndirnar liggja á borðinu, ef menn vilja meta áhrif skattalækkananna þá kemur í ljós að ef fólk á annað borð borgar tekjuskatt hefur skatturinn lækkað, frú forseti.