132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[13:35]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki nema von að hæstv. forsætisráðherra og virðulegur forseti óski okkur góðs gengis í komandi störfum á hv. Alþingi. Það hefur komið fram hjá hæstv. forseta að hann óskaði eftir góðu samstarfi við þingmenn þó tiltölulega holur hljómur væri í þeirri ósk.

Það vildi þannig til að í gær í aðdraganda þessa þingfundar var boðaður fundur í iðnaðarnefnd. Á þann fund mættu a.m.k. hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem þar eiga sæti í góðri trú, til að halda áfram að vinna mjög umdeilt mál, heildarlög um Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Um það mál hefur borist fjöldi umsagna, allar neikvæðar. Búið var að boða gesti á fundinn og fyrir lá ósk frá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur um að fleiri gestir yrðu boðaðir á fundinn. Það var mikill vilji til þess hjá hv. þingmönnum að reyna að vinna þetta mál þannig að einhver bragur væri á því.

En þá gerist það að formaður nefndarinnar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, tilkynnir að komnar séu breytingartillögur og málið sé tekið út. Hann neitar því þeirri ósk að fleiri fulltrúar séu kallaðir til skrafs og ráðagerða um þetta arfavitlausa frumvarp, harðneitar því. Hann lýsir því síðan í fjölmiðlum að aðeins sé um smávægilegar breytingar á frumvarpinu að ræða, ekki í neinu samræmi við þær athugasemdir sem fram hafa komið hjá fjölda þeirra sem skilað hafa umsögn um frumvarpið. Fundi er slitið, málið er tekið út og þá kemur í ljós að það hafði sést undir iljarnar á hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, varaformanni iðnaðarnefndar, rétt áður en nefndarfundurinn byrjaði vegna þess að hann treysti sér ekki til að mæta við afgreiðslu frumvarpsins. Hann hefur enda marglýst því yfir að hann sé á móti málinu og geri við það margar athugasemdir.

En það kemur jafnframt fram í samtölum við hv. þingmann í fjölmiðlum að það hafi líka legið fyrir að ef frumvarpið yrði ekki afgreitt úr nefnd í gær, eins vitlaust og það er, yrðu öll önnur mál upp í loft, ekki samkomulag um nein önnur mál. Það liggja fyrir 108 mál frá ríkisstjórninni, listi yfir 108 mál. Það er víðtæk samstaða um afgreiðslu langflestra þessara mála en þau voru upp í loft, ekki vegna þess að stjórnarandstaðan setti það fyrir sig, ó nei. Þau voru upp í loft vegna þess að traustið innan ríkisstjórnarinnar er ekki meira en þetta.