132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[13:40]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt í þessari umræðu að hv. þingmenn fari rétt með. Sá sem hér stendur hefur aldrei sagt við fjölmiðlamenn að litlar breytingar hafi verið gerðar á frumvarpinu. Það er rangt eftir haft hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur. Ég ræddi um frumvarpið og sagði að engar stórvægilegar breytingar hefðu verið gerðar á því. Við skulum hafa rétt eftir.

Hæstv. forseti. Mikil vinna hefur farið fram í iðnaðarnefnd hvað varðar Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Við höfum haldið tíu fundi og fengið á fund okkar hátt í 40 gesti. Það eru trúlega fá mál á Alþingi sem hafa fengið eins umfangsmikla afgreiðslu og það mál sem við ræðum hér. Hátt í 40 gestir komu á fund nefndarinnar. Hv. stjórnarandstæðingar settu fram þá ósk að við mundum boða um eða yfir 20 gesti á fund til viðbótar við þá sem við höfðum þá þegar hitt. Það var gert. Við uppfylltum það allt saman. Við lögðum fram breytingartillögur, ekki stórvægilegar eins og ég sagði í sexfréttum Ríkisútvarpsins í gær, ekki stórvægilegar breytingar. Við buðum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að fara yfir það mál ásamt m.a. fulltrúum úr iðnaðarráðuneytinu, sem voru frumvarpshöfundar þessa texta, en því var hafnað.

Við í meiri hluta nefndarinnar töldum að efnislegri umfjöllun um málið væri lokið að loknum tíu fundum um málið, að loknum löngum fundum á bak við hvern og einn fund, og ég tel að við höfum unnið ágætt verk í þessum efnum. Þær breytingar sem við lögðum til vildu hv. stjórnarandstæðingar ekki kynna sér þó ég sem formaður nefndarinnar hafi farið allítarlega yfir það á fundinum. Þeir óskuðu ekki eftir því að fulltrúar iðnaðarráðuneytisins kæmu á fundinn til að fara betur yfir þetta mál vegna þess að stjórnarandstaðan hefur einbeitt sér að því að stöðva málið sama hvað það kostar. Það er sannleikurinn í málinu.