132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[13:43]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hv. formaður iðnaðarnefndar hefur farið ágætlega yfir hvernig starfið gekk í iðnaðarnefnd í gær. Í máli hans kom fram að stjórnarandstöðunni var boðin aðild að því að fara yfir þetta mál og að nefndarálitinu og boðin öll sú aðstoð sem á þyrfti að halda til að ljúka málinu. Ég held að hv. formaður iðnaðarnefndar hafi staðið mjög vel að því að ljúka málinu í nefndinni en eins og fram hefur komið hafa mjög margir fundir verið haldnir um það. Það hefur verið leitað eftir umsögnum mjög víða og fjöldi gesta hefur komið að máli við nefndina. Málið var því mjög vel unnið í nefndinni og það var mat formannsins að nú væri nóg að gert og hann skilar vinnunni af sér með nefndaráliti.

Fyrir samsæriskenningu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, um það hvernig þessi vinna gekk til í samhengi við sveitarstjórnarmál, er enginn fótur. Hvergi er hægt að sjá einhver tengsl þar á milli og ég held að hv. þingmaður væri maður að meiri ef hann drægi þessi orð sín til baka. Þetta hæfir ekki hv. þm. Ögmundi Jónassyni þó að hann hafi sérstaklega gaman af samsæriskenningum eins og við vitum öll.